Hinir ýmsu gripir hafa fundist við uppgröft á Stöð á Stöðvarfirði í tveimur misgömlum landnámsskálum. Eldri skálinn er langstærsti landnámsskáli sem fundist hefur á Íslandi en hann er tæplega 44 metrar á lengd.
Það var fyrir nokkrum árum sem Dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur kom auga á þústir í túninu sunnan og vestan við kirkjugarinn í Stöð. Taldi hann þar vera merki um landnámsskála. Reyndist það rétt hjá Bjarna en hann hefur stjórnað uppgreftri þar á hverju sumri síðan.
Uppgraftartíminn hefur verið ansi knappur frá upphafi en þó sérstaklega í ár en aðeins verður grafið í 3. vikur í sumar. Lengt uppgraftartímans fer meðal annars eftir styrkveitingum frá Minjastofnun Íslands.
Von á dönskum fræðimönnum
Heimamenn á Stöðvarfirði hafa verið duglegir að aðstoða Bjarna og hóp hans á allan þann máta sem hægt er enda er um að ræða fyrstu landnámsskála sem fundist hafa á Austurlandi og Stöðfirðingar hæst ánægðir með fundinn.
Aðspurður um það hvernig hefur gengið að grafa í sumar svarar Bjarni því til að þau séu aðeins nýbyrjuð, „Við erum auðvitað ekki búin að grafa í marga daga, við erum að hreinsa þarna fram og reyna að átta okkur á því hvað þetta kunni að vera á svæðum austar af skálunum. Ég veit ekkert um það ennþá, einhverjar vinnslusvæði eða Activity zones eins og þetta heitir á góðri íslensku. Við erum að undirbúa eldri skálann fyrir komu danskra fræðimanna sem ætla að taka haug af sýnum til DNA greiningar. Jarðvegssýnum. Og þá er allt DNA greint, pöddur, bakteríur, fána og flóra.“
Lang ríkasti skáli Íslands
En hafa skálarnir verið aldursgreindir?
„Já, já. Ennþá held ég því fram að yngri skálinn sé hefðbundinn landnámsskáli höfðingja og hann liggur ofan á þeim eldri, svona eins og skál á skál ofan á eldri skálann sem er þá eldri. Sá skáli er frá árabilunum 800-870 og líklegast í neðra rófinu.“
En hverjir eru merkilegustu gripirnir sem fundist hafa í Stöð að mati Bjarna?
„Mér finnst merkilegustu gripirnir þeir sem fólk hefur engan áhuga á en það eru jaspis, verkfærin og steinskífur en skálinn í Stöð er lang ríkasti skálinn á Íslandi, sem fundist hefur. Fjöldi perlna er alveg ógnvænlegur, við erum að detta í svona 190 perlur samtals. Svo höfum við fundið silfur og brýni og smá gull meira að segja. Og svo arabísk mynt, tveir rómverskir peningar, sauðaklippur, tveir skutlar, exi og ég er örugglega að gleyma einhverju,“ sagði Bjarni hress með árangurinn.
Hér fyrir neðan má sjá lítið brot af því sem fundist hefur í Stöð.