Í grunnskólanum á Vopnafirði sjá þrír almennir kennarar um íþróttakennslu.
Fram kemur í frétt Austurfréttar að þrátt fyrir auglýsingar eftir kennurum hafi einungist náðst að fullmanna almennar kennslugreinar í grunnskólanum á Vopnafirði en það náðist á allra síðustu metrunum líkt og það var orðað í fréttinni. Ekki tókst að manna íþróttakennslu en þrír almennir kennarar við skólann hafa tekið að sér að kenna íþróttir til skiptis.
Almennt hefur gengið þokkalega að ráða starfsfólk í skólum Austanlands, samkvæmt svörum skólastjórnenda fjórðungins, við fyrirspurnum Austurfréttar. Að sögn Sigríðar Elvu Konráðsdóttur, stkólastjóra grunnskóla Vopnafjarðar, tókst vel að manna stöður í skólanum en það hafi þó aðeins náðst rétt fyrir byrjun skólaársins. Kemur fram í fréttinni að fjöldi leiðbeinenda án kennsluréttinda sé hærri við skólann en eðlilegt getur talist.
„Þetta hafðist á lokametrunum ef við getum orðað það sem svo. Þó með þeim annmörkum að við fengum engan íþróttakennara og okkur vantar reyndar líka sérkennara á þessari stundu. Staðan nú er góð svona miðað við allt og allt en það eru vissulega fleiri við kennslu án réttinda hjá okkur en ég hefði viljað,“ sagði Sigríður í samtali við Austurfrétt.
Ekki sála sótti um starf íþróttakennara við skólann á þessu skólaári en með sameiginlegu átaki tókst að leysa það, að sögn Sigríðar.
„Hún felst í því að það eru þrír almennir kennarar hjá okkur sem skipta íþróttakennslu á milli sín í vetur. Engin kjörstaða og sérstaklega ekki því í íþróttakennslu felst sundkennsla. En þetta var það eina sem okkur datt í hug til að halda úti kennslunni.“