Mannlíf hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að Arion banki sé að endurreisa kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Í febrúar 2021 sagði bankastjóri Arion banka að litlar vonir væru um að kísilverksmiðjan yrði endurreist.
Nú segir bankinn að mikill áhugi sé á henni vegna breyttra markaðsaðstæðna og að viðræður standi yfir við áhugasama kaupendur.
Stakksberg ehf., félag utan um kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, var metið á 1,6 milljarða króna í bókum Arion banka, eiganda félagsins í febrúar 2021. Í lok mars 2019, fyrir tæpum þremur árum síðan, var virði hennar bókfært á 6,9 milljarða króna. Það hefur því verið fært niður um 5,3 milljarða króna á innan við þremur árum og þar af nam niðurfærslan á virði verksmiðjunnar 1,1 milljarði króna fyrir tveimur árum síðan.
Samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi Arion banka voru neikvæð rekstraráhrif Stakksbergs meiri en sem því nemur á árinu 2020, eða alls 1,4 milljarði króna. Þar kemur enn fremur fram að bókfært virði félagsins endurspegli nú „einkum verðmæti lóðar og endursöluvirði tækjabúnaðar.“
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði á uppgjörsfundi bankans í febrúar 2021 að þar sem bankinn bókfærði aðeins hrakvirði á verksmiðjuna væri það „vísbending um að litlar vonir væru um að verksmiðjan muni starfa aftur, áhugavert væri að sjá aðra og grænni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni.”
Stopp í næstum þrjú og hálft ár
Kísilmálmverksmiðjan hefur ekki verið í gangi frá því í september 2017. Nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2018, fór félagið sem byggði hana í þrot en áætlaður kostnaður við uppsetningu verksmiðjunnar var um 22 milljarðar króna.