Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi bókun til fjármála,- atvinnuvega- og sveitarstjórnarráðherra þar sem það lýsir yfir þungum áhyggjum vegna boðaðra hækkana á veiðigjöldum og auknum kvóta til strandveiða.
Í bókun bæjarráðsins segir meðal annars að hækkun veiðigjalda muni auka kostnað útgerða á Austfjörðum ofan á talsverðar hækkanir sem urðu um áramótin. Þar segi einnig að fyrirhugaðar hækkanir muni bitna á fjárfestingum fyrirtæki og draga úr afkomu þeirra.
Skorar bæjarráðið á yfirvöld að hafa samráð við hagsmunaaðila og framkvæma greiningu
á áhrifum boðaðra breytinga á rekstur fyrirtækja og samfélög sem byggja afskomu sína á sjávarútvegi.
Hér má lesa bókunina í heild sinni:
Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna óvissu sem nú ríkir í sjávarútvegi í kjölfar boðaðra hækkana á veiðigjöldum, einkum á uppsjávarveiðar, ásamt þeim áhrifum sem boðuð aukning á kvóta til strandveiða kemur til með að hafa á aðra kvóta. Fjarðabyggð er sveitarfélag sem byggir að stórum hluta á sjávarútvegi og óvíða kemur meiri afli á land en þar og velgengni greinarinnar er undirstaða efnahagslegrar og félagslegrar stöðu samfélagsins.
Áhrifin á sjávarútveginn og sveitarfélagið:
– Hækkun veiðigjalda mun auka kostnað útgerða á Austfjörðum ofan á umtalsverðar hækkanir sem urðu um áramótin og veikja þannig fjárhagslega getu þeirra.
– Hækkanir á veiðigjöldum koma ofan á óstöðugleika sem þegar hefur ríkt í greininni, m.a. vegna loðnubrests, skerðinga á raforku og óvissu um markaðsaðstæður.
– Fyrirséð er að slíkar hækkanir muni bitna á fjárfestingum fyrirtækja, draga úr afkomu þeirra og veikja samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamörkuðum. Þessar aðstæður hafa einnig afleidd áhrif á atvinnustig og tekjur samfélagsins sem þegar hafa dregist saman verulega vegna loðnubrests á liðnu ári. Hefur það haft veruleg áhrif á tekjur sveitarfélagsins Fjarðabyggðar eins og víðar um land.
Áskorun til stjórnvalda: Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur stjórnvöld til að grípa til eftirfarandi aðgerða:
- Samráð við hagsmunaaðila: Stjórnvöld þurfa að hefja samtal við útgerðir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem byggja á sjávarútvegi til að eyða óvissu og kynna áform sín á málefnalegan og skýran hátt.
- Heildrænt mat á áhrifum: Mikilvægt er að framkvæma greiningu á áhrifum boðaðra breytinga á rekstur fyrirtækja og samfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.
Með þessu móti má tryggja að ákvarðanir um sjávarútveg styðji við sjálfbæra nýtingu auðlinda, efnahagslegan stöðugleika og byggðaþróun í samfélögum eins og Fjarðabyggð.
Bæjarráð Fjarðabyggðar leggur því ríka áherslu á nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist við með ábyrgum hætti og hefji samtalið. Íslenskur sjávarútvegur er enn ein af grunnstoðum samfélagsins hér á landi og að henni þarf að hlúa en ekki veikja.
Bókun þessi er send á fjármála,- atvinnuvega- og sveitarstjórnarráðherra, þingmenn kjördæmisins og fjölmiðla.