Guðmundur Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, fékk tilkynningu frá Rarik um mannabein.
Það er ekki á hverjum degi sem fólk finnur mannabein í vinnunni en það kom fyrir starfsmenn Rarik á Norðurlandi vestra. Starfsmenn Rarik tilkynntu málið til minjavarðar Norðurlands vestra.
„Við fengum tilkynningu núna rétt fyrir hádegið að þeir voru hérna frá Rarik að leggja heimtaug heim að bænum og rákust á bein sem þeim þóttu eitthvað torkennileg og voru eitthvað búnir að velta vöngum yfir þessu. Þeir héldu aðeins áfram og þá kom í ljós höfuðkúpa af manni, þannig að það fór ekkert á milli mál að þarna væri eitthvað sem þyrfti að skoða. Þeir höfðu samband og við erum hérna núna til að reyna átta okkur á því hvað er í gangi hérna,“ sagði Guðmundur Sigurðarson, minjavörður Norðlands vestra, um málið í samtali við Feyki og sagði að um óþekktan kirkjugarð væri að ræða.
„Þeir eru reyndar með alveg framúrskarandi árangur, Rarik í Skagafirði, að finna kirkjugarða. Þetta er allavega þriðji garðurinn sem þeir finna held ég. Þeir stela oft þrumunni af fornleifafræðingum sem eru að keppast við að leita að þessu og hafa ekkert fyrir því. Þannig það er bara mjög ánægjulegt að þeir láta allavega vita svo það sé hægt að skoða þetta og fylla í eyðurnar í sögunni, fá nánari upplýsingar, það er bara mjög ánægjulegt. Þeir eru ábyrgir í því að láta vita þegar svona kemur upp,“ en beinin fundist á bænum Hóli í Sæmundarhlíð.
„Það á eftir að meta hvað verður gert með þessi bein sem eru að koma hérna upp, þau eru vel varðveitt en það á eftir að ákveða hvort það sé einhver ástæða til þess að rannsaka þau eitthvað nánar eða hvort þau verði sett niður aftur,“ sagði Guðmundur.