Karlmaður var dæmdur af Héraðsdómi Austurlands í 45 daga fangelsi fyrir að ráðast á fyrrum sambýliskonu sína á fyrrverandi heimili þeirra. Dómurinn er skilorðsbundinn.
Ku maðurinn hafa ætt inn í húsið með því að opna rafknúna bílskúrshurð og farið þannig inn um hliðardyr og inn í húsið. Austurfrétt segir frá málinu í dag.
Þegar inn var komið veittist maðurinn að konunni og hrinti í gólfið. Meiddist konan á höfði, handlegg og fótum. Aukreitis eyðilagði hann farsíma konunnar og fartölvu með því að henda þeim í gólfið.
Við þingfestingu mætti mætti maðurinn ekki fyrir dóm en fjarvera hans var talin jafngilda játningu.
Fram kemur í dómnum að sár konunnar hafi gróið á nokkrum dögum og að maðurinn hafi bætt raftækin sem hann eyðilagði. Hins vegar telst sekt hans fullsönnun en hann var ákærður fyrir brot gegn fyrrverandi maka en brot mannsins falla einnig undir ákvæði um líkamsárás, eignartjón og húsbrot.
Hefur maðurinn ekki hlotið áður dóm. Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.