Rapparinn, skáldið og skemmtikrafturinn Dóri DNA hefur verið valinn Mosfellingur ársins 2023.
Halldór átti gott ár í fyrra þegar kemur að bæjarfélaginu en hann er annar tveggja sjónvarpsþáttaraðarinnar Afturelding sem var sýnd í fyrra og gerist að miklu leyti í Mosfellsbæ.
„Ég er djúpt snortinn, þetta eru fyrstu verðlaunin sem ég vinn á ævi minni og að þau komi úr þessari átt er þeim mun sætara,“ sagði Halldór samtali við Mosfelling en blaðið stendur fyrir valinu. Halldór hefur lengi verið verið tengdur Mosfellsbæ en rapplagið Mosó flutningi hans er eitt vinsælasta rapplag Íslandssögunnar. Þar greinir hann meðal annars frá því að bærinn sé stundum kallaður Pítsabær og að mánudagar séu „Miller time“. Einnig greinir Dóri frá því í laginu að fólk í bænum sé annað hvort afreksfólk í skóla eða handbolta. Í laginu segir hann líka: „Mosfellsbær er staðurinn sem fokking ól mig upp,“ og má heyra börn bæjarins syngja það í skólum þess.
„Það er mér gríðarlegur heiður að hljóta þennan titil, er alltaf sendiherra Mosfellsbæjar hvar sem ég er í heiminum. Mosfellsbær hefur breyst mikið frá því ég ólst hér upp en í allri minni sköpun leita ég í upprunann, yfirleitt er ég að lýsa Mosfellsbæ æsku minnar.
Ég veit að þetta hljómar kannski lúðalega en Mosfellsbær gaf mér rödd, gaf mér afstöðu til að sjá hlutina í ákveðnu ljósi og þetta er það eina sem ég á sem listamaður,“ sagði Dóri að lokum.