Hlynur Geir Hjartarson náði holu í höggi í gær en það er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann nær þeim merka áfanga.
Hinn sjóaði kylfingur, Hlynur Geir Hjartarson úr Golfklúbbi Selfoss, gerði sér lítið fyrir í gær og fór holu í höggi í gærmorgun á 17. braut í Vestmannaeyjum.
Sunnlenska segir frá málinu en þar kemur fram að það hafi komið aðstandendum Hlyns mest á óvart að þetta var í fyrsta sinn sem hann fer holu í höggi en hann hefur stundað íþróttina í 28 ár.
„Eftir 28 ár í golfi og mjög marga golfhringi kom loksins að þessu. 132 metrar, 9 járn, logn og sól,“ sagði Hlynur í Facebook-færslu í gær og bætti við: „Þetta var geggjað og ólýsanlega gaman og að gera þetta með Gunnhildi [Hjaltadóttur, eiginkonu Hlyns] var stór plús. Kalli Haralds í GV sagði að ég væri sá fjórði sem nær að fara holu í höggi á 17. holu frá upphafi,“ bætti Hlynur Geir við.
Hlynur náði þessum merka áfanga er hann var að spila æfingahring fyrir Íslandsmótið í gofli sem hefst í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn.
Bakvið alla góða menn er sterk kona og því heyrði Mannlíf í eiginkonu golfarans, Gunnhildi Katrínu Hjaltadóttur og spurði hvort karlinn væri ekki ansi montinn í augnablikinu.
„Jú en enn að átta sig á þessu,“ svaraði hún en benti svo á skemmtilega staðreynd: „Og gaman að því að þau eru þrjú frá mér að keppa, Hlynur og stelpurnar okkar Heiðrún Anna og Katrín Embla.“
En er Gunnhildur ekki með á mótinu?
„Ég er i caddystörfum, nóg að gera þar með þrjú!“ svaraði hún hlæjandi.
Mannlíf óskar Hlyni til lukku með draumahöggið og fjölskyldunni góðs gengis á mótinu!