Akureyri er líflegur og fallegur bær og þar er líf og fjör í allt sumar og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það eru heimamenn eða aðrir.
Bærinn fullur af fólki
N1-mót KA hófst miðvikudaginn 30. júní og stendur til laugardagsins 3. júlí og segir Davíð Rúnar Gunnarsson, eigandi Viðburðastofu Norðurlands, að bærinn sé þessa dagana fullur af fólki. Um 2000 krakkar eru skráðir á N1-mótið og þeim fylgja foreldrar og í sumum tilfellum systkini þannig að um 7-8000 manns hafa komið í bæinn vegna mótsins.
Pollamót Þórs hefst svo í dag, 2. júlí og sér Viðburðastofa Norðurlands um allar skemmtanir tengda því. „Þar eru hátt í 800 keppendur og gerum við ráð fyrir um 10-12.000 manns í bænum um helgina tengdum þessum tveimur mótum.“
Hjólreiðahátíð Greifans verður haldið 24. júlí – 1. ágúst og má nefna að 28. júlí verður Íslandsmót í ólympískum fjallahjólreiðum – börn og unglingar, 30. júlí verður bikarmót í fjallabruni í Hlíðarfjall og 31. júlí verður Íslandsmót í ólympískum fjallahjólreiðum fyrir fullorðna.
Ein með öllu
Það verður sannarlega líf og fjör á Akureyri um verslunarmannahelgina og verður mikið í boði og má þar nefna hátíðina Eina með öllu. Tívolí verður í bænum.
„Ein með öllu er fjölskylduhátíð; þetta snýst um fjölskylduna og að hreyfa sig og skemmta sér. Skemmtistaðir verða auðvitað opnir og það verður nóg í boði fyrir unga fólkið og alla fjölskylduna.“
„Á hátíðinni verður mikið um að vera á græna Hattinum um versló en þar verða til dæmis Hvanndalsbræður, Dúndurfréttir, Hjálmar og Stjórnin. Í Sjallanum verður einnig mikið um að vera en þar verður boðið upp á Herra Hnetusmjör og Birnir sveitaball með hljómsveitinni Súlum og Séra Bjössi, Aron Can og Páll Óskar slútta svo helginni þar.“
Hjól, hlaup og paraáskorun
Á vegum Rafhjólaklúbbs Akureyrar verður boðið upp á skemmtilegt hjólamót fyrir rafhjólaeigendur
Paraáskorun Norður líkamsræktar verður haldin um verslunarmannahelgina. Mótið fer fram á þremur stöðum. Á föstudag keppa allir í Njarðarnesi og þeir sem komast áfram keppa svo á laugardag í Tryggvabraut og þeir sem komast áfram þar keppa svo á sunnudag við Hof.
24 lið komast áfram í Tryggvabraut og 10 lið komast áfram í Hof. Tvær æfingar verða teknar hvern dag og keppa tvær stelpur saman og tveir strákar saman.
Súlur Vertical er spennandi hlaupamót sem fer fram á Akureyri þessa helgi þar sem boðið verður upp á þrjár vegalengdir, 18 km, 28 km og 55 km utanvegahlaup. „Þetta er stórmót og jafnvel á heimsmælikvarða en hlaupið verður alveg upp á Súlur og endar í miðbæ Akureyrar með pompi og prakt.“
Hæfileikakeppni og glæsilegir tónleikar
Það verður mikil og spennandi dagskrá í boði í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi um verslunarmannahelgina. „Þar verður til dæmis hæfileikakeppni krakka á laugardeginum og margt annað fyrir alla fjölskylduna,“ segir Davíð og má geta þess að sumarútsölur hefjast þar 14. júlí og lýkur þeim 29. júlí. Svo tekur götumarkaður við um tíma.
í Akureyrarkirkju verður til dæmis boðið upp á Óskalagatónleika með þeim Óskari Péturssyni ,Eyþóri Inga Jónssyni og Ívar Helgasyni en þeir syngja og spila óskalög tónleikagesta í Akureyrarkirkju. Þessa tónleika hafa þeir haldið á föstudagskvöldi um verslunarmannahelgi í mörg ár við frábærar undirtektir bæjarbúa. Tónleikagestir fá lagalista með nokkur hundruð lögum og biðja um óskalög á staðnum.
Eitthvað fyrir alla
Color Run verður haldið í þriðja sinn á Akureyri og núna verður það einmitt haldið á sunnudeginum um verslunarmannahelgina.
Paddle board-veisla verður við Hof á sunnudeginum.
Kjarnaskógardagurinn verður haldinn þennan sunnudag en í Kjarnskógi verður ýmislegt í boði fyrir gesti og gangandi og þessi viðburður fer stækkandi með hverju árinu enda fátt betra en að spóka sig um í einum fallegast skógi landsins.
„Viðburðurinn Mömmur og möffins“ verður á sunnudeginum en þá taka mömmur, og reyndar líka pabbar, í bænum sig til og búa til möffins og hefur þetta verið selt undanfarin ár til styrktar mjög góðu og þörfu málefni.“
Söfnin í bænum verða opin um verslunarmannahelgina og má þar nefna Mótorhjólasafnið, Listasafnið á Akureyri, Flugsafnið, Leikfangasýningu Friðbjarnarhús og Iðnaðarsafn. Markaðssetmmning verður svo á Ráðhústorginu alla helgina.
„Það má segja að verslunarmannahelginni ljúki svo með svokölluðum sparitónleikum á flötinni fyrir neðan samkomuhúsið þar sem fólk á að klæða sig upp á og vera huggulegt og jafnvel að taka með sér stóla og teppi og koma sér vel fyrir og njóta tónlistar. Kvöldið endar svo á flugeldasýningu frá Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri.“
Þetta er svona brot af því sem verður í gangi á Akureyri um Verslunarmannahelgina og hvetjum við fólk til að kynna sér vel dagskrána inni á einmedollu.is