Erlendum manni var bjargað úr sjálfheldu hátt í hlíðum Hólmatinds í gærkvöldi.
Heljarinnar björgunaraðgerð var framkvæmd í hlíðum Hólmatinds í Eskifirði í gærkvöldi. Austurfrétt segir frá því að björgunarsveitarmenn frá Ársól á Reyðarfirði og Gerpi frá Eskifirði, auk þyrlu Landhelgisgæslunnar hafi í gærkvöldi tekið þátt í að bjargar erlendum manni sem hafði komið sér í sjálfheldu hátt í hlíðum Hólmatinds. Tóku aðgerðirnar alls sex klukkustundir og lauk í nótt.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að um hafi verið að ræða mann af erlendu skipi sem hafði lagst að í Eskifjarðarhöfn fyrr um daginn. Hrein tilviljun réði því að til mannsins sást en björgunarsveitarmenn Gerpis voru akkurat á bátaæfingu í firðinum er þeir tóku eftir ljósi hátt í hlíðum hins bratta og tignarlega fjalls, um klukkan 20:30 í gærkvöldi. Undir eins var aðgerðarstjórn virkjuð og óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Fljótt kom í ljós að maðurinn var í hættulegum aðstæðum í um fimm hundruð metra hæð og myrkri en með hjálp dróna var unnt að greina að viðkomandi væri í sjálfheldu í fjallinu. Samband var haft við manninn og hann beðinn um að halda sér kjurrum á sínum stað. Tók það björgunarsveitirnar fimm klukkustundir að komast til mannsins enda fjallið bratt og hált og að auki var niðamyrkur á svæðinu, en notast var þó við öfluga ljóskastara.
Lögreglan segir að maðurinn hafi verið orðinn kaldur og þreyttur en við sæmilega heilsu að öðru leiti. Björgunarsveitarfólkið beið með manninum þar til þyrlan komst á staðinn um klukkan 02:15 í nótt og flutti manninn til aðhlynningar á Eskifirði en hann þurfti ekki innlögn á sjúkrahús.
Í byrjun desember fjallaði Mannlíf um það þegar hundi var bjargað af Hólmatindi en fjallið er afar erfitt yfirferðar þeim megin sem snýr að bænum.