Eitt þekktasta dægurlag bræðranna Jóns Múla og Jónasar Árnasonar er Einu sinni á ágústkvöldi. Textinn er rómantísk lýsing á ástarfundi þar sem aðeins voru til vitnis nokkrir þrestir. Í ljóðinu eru talin upp nokkur þekkt örnefni á borð við Bolabás, Ármannsfell og Skjaldbreið. Eitt örnefni stingur þó í augu en það er Eyktarás sem engar heimildir eru til um. Talað er um hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
Reyndin er sú að Eyktarás er aðeins skáldskapur þar sem textahöfundur vísar að sögn í eyktirnar, sem hver er þrjár klukkustundir hver og því átta á einum sólarhring.
Löngu eftir að ljóðið var samið var tekið upp götunafnið Eyktarás í Reykjavík. Á síðasta ári varð svo til bæjarnafnið Eyktarás í Borgarfirði. Hús þetta stendur í landi Kópareykja en þar bjó höfundurinn, Jónas Árnason um árabil. Dóttir hans, Ingunn Jónasdóttir, keypti Kópareyki 2 og breytti nafninu á 100 ára afmæli Jónasar í Eyktarás til heiðurs föður sínum. Hér má hlusta á ljóð og lag.
Austur í Þingvallasveit
Einu sinni á ágústkvöldi,
austur í Þingvallasveit
gerðist í dulitlu dragi
dulítið sem enginn veit,
nema við og nokkrir þrestir
og kjarrið græna inn í Bolabás
og Ármannsfellið fagurblátt
og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
Þó að æviárin hverfi
út á tímans gráa rökkurveg,
við saman munum geyma þetta ljúfa leyndarmál,
landið okkar góða, þú og ég.
Texti Jónas Árnason.