Fimm íslenskir golfvellir eru taldir með 100 bestu völlum meginlands Evrópu. Vestmannaeyjavöllur prýðir forsíðu Golf World sem birti listann.
Tigull.is sagði frá þessu í dag en tímaritið Golf World var að birta svokallaðan top-100 X-factor lista yfir bestu golfvelli á meginlandi Evrópu. Eru fimm íslenskir vellir á listanum en sá efsti er Brautarholtsvöllur en hann er í fjórða sæti listans. Næstur kemur Vestmannaeyjavöllur, í áttunda sæti en völlurinn prýðir einnig forsíðu tímaritsins. Þá er Keilir í 35. sæti og völlurinn í Vík í Mýrdal prýðir 42. sæti. Golfvöllurinn á Siglufirði er svo í því fimmtugasta.
Kemur fram á tigull.is að tveir vallanna séu hannaðir af Edwin Ropald hjá Eureka golf en það eru vellirnir á Brautarholti og á Siglufirði. Þar segir einnig að Brautarholt skáki meðal annar hinum fræga Le Golf National í París en þar fór keppni um Ryder-bikarinn fram árið 2018 en þar mun einnig goflkeppni Olympíuleikanna fara fram árið 2024. Hér fyrir neðan má sjá forsíðu Golf World.