Austurfrétt segir frá að Flugfélagið Ernir bjóði upp á flugsæti á almennum markaði til og frá Egilsstöðum næsta fimmtudag. Er flugið tilfallandi og ekki byrjunin á samkeppni á flugleiðinni.
„Við erum með verkefni þennan dag og ákváðum að nýta tækifærið og selja tóma leggi, frekar en fljúga vélinni annað tómri eða láta hana bíða,“ segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri Ernis í samtali við Austurfrétt.
Samkvæmt miðlinum hafa Austfirðingar fagnað þessu boði Ernis, líka í von um að þetta sé byrjunin á samkeppni við Icelandair á flugleiðinni sem Austfirðingar hafa beðið eftir í fjöldi ára. Icelandair hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarnar vikur fyrir takmarkað sætaframboð, hátt verð og raskanir á flugáætlun en fyrirtækið er eina flugfélagið sem flýgur frá Egilsstöðum. Fagna Austfirðingar að sætið hjá Erni kosti 10.900 krónur.
Segir Ásgeir að flugið á fimmtudaginn sé ekki upphafið að samkeppni á leiðinni af hálfu Ernis. „Þetta er algjörlega tilfallandi og við vildum bjóða Austfirðingum og öðrum að ferðast með okkur, ef þeir vildu.
Þó er engin launung um að við höfum fengið fyrirspurnir úr ýmsum áttum hvort við ætlum að bjóða upp á flug á aðra áfangastaði en við höfum í dag. Við erum ekki að boða komu okkar með þessu flugi en umræðan er jákvæð,“ segir Ásgeir.
Það verður 32ja sæta Dornier 328 flugvél Ernis sem flýgur með farþega næstkomandi fimmtudag. Verður í boði að fljúga úr Reykjavík klukkan 8:45 um morguninn og frá Egilsstöðum klukkan 19:00. Aðeins verður hægt að bóka sæti í síma eða tölvupósti og loftbrú veitir ekki afslátt.