Guðni Th. Jóhannesson, forseti ÍSlands, eignaðist forláta hnífg í heimsókn sinni í Árneshrepp um helgina. Listasmiðurinn og hleðslumeistarinn Guðjón Kristinsson í Stóru-Ávík færði honum hnífinn að gjöf eftir að forsetinn og 45 gestir höfðu gengið með Guðjóni um Galdrastíg sem liggur að aftökustaðnum í Kistuvogi. Guðjón hannaði stíginn og byggði hann upp. Eingöngu var notast við náttúruleg efni við uppbygginguna. Sama er að segja um hnífinn sem Guðjón smíðaði, meðal annars úr rekaviði. Slíðrið er úr selsskinni.
Forsetinn tók ekki annað í mál en að borga fyrir hnífinn en ógæfumerki er að þiggja slíkan grip að gjöf. Vandinn var sá að hann átti enga peninga tiltæka. Varð uppi fótur og fit í hópnum sem var viðstaddur. Endaði með því að einn gestanna fann smámynt til að forða Guðna frá illum örlögum. Voru þá kaupin handsöluð.
Opinberri heimsókn forseta Íslands, þeirri síðustu ´aferli hans, lauk í Djúpuvík þar sem hann heimsótti Baskasetrið og þáði hádegisverð.