Heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Strandir lauk í gær. Forsetinn fór á kostum í þessari síðustu opinberu heimsókn sinni og fór ótroðnar slóðir. Hann kleif fjallið Glissu undir leiðsögn Ferðafélags Íslands og fékk gullmerki félagsins á efsta tindi að viðstöddum 25 manns. Forsetanum fráfarandi til heiðurs heitir nú klettur á hátindi fjallsins Guðnakleif.
Eftir fjallgönguna var haldið í Ingólfsfjörð þar sem forseti og göngufólk fengu leiðsögn Guðjóns Ingólfssonar um gömlu síldarverksmiðjuna. Forsetinn gerði sér lítið fyrir og skreið inn um mannop í lýsistank verksmiðjunnar. Í framhaldinu mætti forseti Íslands í sjósund í Norðurfirði ásamt fjölda fólks á svæðinu. Athygli vakti sundskýlan hans sem er úr ull og kallast loðbrók.
Um kvöldið var Helgi Björns með tónleika í Fjárhúsinu á Valgeirsstöðum. Forsetinn steig þar á svið með Helga og hljómsveitinni og söng, Vertu þú sjálfur fyrir fullu húsi og uppskar gríðarleg fagnaðarlæti.
Heimsókn forsetans lauk í gær með heimsóknum í byggðasafnið Kört, kirkjurnar tvær, Kistuvog og Baskasetrið á Djúpuvík.