Maðurinn sem er grunaður um að hafa myrt hjón á áttræðisaldri er sagður samkvæmt áfrýjuðum úrskurði héraðsdóms um gæsluvarðhald vera alvarlega veikur að mati geðlæknis.
Í úrskurðinum segir geðlæknir að maðurinn sé hættulegur öðrum og þurfi að sæta öruggri gæslu á viðeigandi stofnun. „Hann þurfi jafnframt að fá sérhæfða meðferð til lengri tíma í ljós alvarleika veikinda sinna og hversu langvinn og inngróin þau virðist vera,“ er meðal annars skrifað um manninn.
Þá kemur einnig fram að samkvæmt gögnum lögreglu hafi verið mikið af ætluðu storknuðu blóði á fatnaði og skóm mannsins. Þá hafi hann verið með eigur fólksins í fórum sínum.
Neitar fyrir að bera ábyrgð
Í yfirheyrslum á maðurinn að hafa viðurkennt að hafa verið á heimili fólksins í Neskaupstað en hafnaði því alfarið að bera ábyrgð á andláti þess heldur hafi þau verið látin þegar hann mætti til þeirra. Útskýringar hans á af hverju hann lét ekki vita af andlátinu voru hins vegar ekki metnar trúverðugar.
„Þá munu niðurstöður lífsýnarannsókna liggja fyrir en beðið er eftir niðurstöðum blóðferlaskýrslu tæknideildar lögreglu sem eru að sögn sóknaraðila væntanlegar á næstu dögum. Skýrslur um krufningu liggja ekki fyrir en munu jafnframt vera væntanlegar á næstu dögum,“ stendur einnig í úrskurðinum en talið er að rannsókn málsins sé að mestu lokið.
Maðurinn þarf samkvæmt úrskurði héraðsdóms að sitja í áframhaldandi varðhaldi.