Opnað hefur verið fyrir spilamennsku á öllum brautum á Húsatóftavelli í Grindavík en spilamennska á sumum brautum var takmörkuð um nokkurt skeið vegna jarðhræringa og eldgosa á Suðurnesjum.
„Það er engin hætta hér, við værum ekki með opið ef þetta væri hættulegt. Við höfum verið í nánu samstarfi við almannavarnir og það er búið að jarðvegsskanna allan völlinn, þannig að ég get fullyrt það að við erum sennilega öruggasti golfvöllurinn á Íslandi, þótt víðar væri leitað,“ sagði Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, í samtali við mbl.is.
Helgi segist vera bjartsýnn á að geta haldið öllum brautunum opnum svo framarlega sem það fari ekki að gjósa aftur. Þá sé völlur í frábæru standi en lítið hafi þurft að laga eftir jarðhræringarnar. Helgi segir þó að aðsóknin hafi ekki verið góð undanfarna mánuði en vonast eftir að hún aukist.
„Þar blasir við stórkostlegt útsýni yfir nýja hraunið og það er ævintýraferð að heimsækja okkur,“ sagði Helgi að lokum.