Nýlegur starfshópur skipaður af innviðaráðherra kannar möguleika á göngum til Vestamanneyja.
Sigurður Ingi Jóhannsson skipaði fyrir stuttu starfshóp um að kanna fýsileika þess að bora jarðgöng til Vestmannaeyja en eftir slíku hefur verið óskað í Vestmannaeyjum í áratugi. Starfshópurinn hefur þegar hafið störf og á að skila að skýrslu ekki seinna en 31. júlí 2024.
„Starfshópurinn hefur það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Þá á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær rannsóknir og greiningar sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja. Starfshópurinn mun skila innviðaráðherra skýrslu um niðurstöður starfshópsins, valkostum, arðsemismati og tillögum að næstu skrefum, byggt á fyrirliggjandi vísindagögnum og nýjustu upplýsingum,“ sagði í tilkynningu um hlutverk hópsins.
Starfshópinn skipa:
- Kristín Jónsdóttir, formaður, án tilnefningar,
- Freysteinn Sigmundsson, án tilnefningar,
- Freyr Pálsson, tilnefndur af Vegagerðinni,
- Anton Kári Halldórsson, tilnefndur af Rangárþingi Eystra,
- Gylfi Sigfússon, tilnefndur af Vestmannaeyjabæ.