Veðurstofan bendir á áframhaldandi hættu á skriðum á Suðurlandi í tilkynningu sem hún sendi frá sér í morgun.
„Miklar leysingar hafa átt sér stað á sunnan- og vestanverðu landinu síðasta sólarhring, samfara mikilli úrkomu, hlýindum og hvassviðri. Vatnavextir hafa verið í ám og lækjum á þessum svæðum, en eftir miðnætti dró verulega úr úrkomu vestan til á landinu og dregur því hratt úr hættunni þar. Veðurspáin gerir ráð fyrir áframhaldandi úrkomu á sunnanverðu landinu fram eftir degi, sérstaklega í grennd við Eyjafjalla-, Mýrdals- og Öræfajökul,“ segir í tilkynningunni. Tekið er þó fram að dregið hafi úr krapaflóðahættu.
Veðurspáin gerir ráð fyrir að það stytti upp seinni partinn í dag samkvæmt Veðurstofunni og að það fari að kólna. Því ætti að draga úr hættu á skriðuföllum.
„Gera má ráð fyrir svölu veðri þriðjudaginn 10. desember, en á miðvikudagsmorgun kemur önnur lægð upp að sunnanverðu landinu. Úrkomumagnið í þeirri lægð er ekki á pari við veðrið sem nú er að ganga yfir.“
Tvær tilkynningar hafa borist Veðurstofunni í dag og í gær. Fyrri féll á Eyrarhlíð á Vestfjörðum. Sú seinni féll við Gemlufallsheiði og lokaði veginum milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar.