Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Halldór var ungur er hann missti föður sinn -segir gaman að geta tekið við rekstri hans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hann stofnaði fyrirtækið í kringum 1950, hann var úrsmiður og rak viðgerðarverkstæði og verslun til 1984, þá deyr hann frekar ungur.“

Verslunin Halldór Ólafsson úr og skart er staðsett á Glerártorgi á Akureyri. Verslunin hefur verið starfrækt í rúm sjötíu ár og má með sanni segja að hún hafi stækkað og dafnað með árunum. Árið 2000 fluttist verslun Halldórs Ólafssonar úr Hafnarstræti 83 þar sem hún hafði verið frá stofnun í litlu notalegu húsnæði, norður á Glerártorg. Á Glerártorgi hefur verslunin í tvígang stækkað við sig og er óhætt að fullyrða að hún sé orðin ein af stærstu og glæsilegustu úra- og skartgripaverslunum landsins. Bæði flytur verslunin inn sína eigin skartgripi, ásamt því að vera með ótal vörumerki og eru íslenskir hönnuðir þar áberandi.

Ákvað að prufa úrsmíði

Halldór Halldórsson tók við rekstri föður síns, Halldórs Ólafssonar, eftir að hafa lokið úrsmiðsnámi árið 1989. Halldór var í framhaldsskóla þegar faðir hans féll frá og segist hann hafa ákveðið að stúdentsprófi loknu að prufa nám í úrsmíði og sjá hvernig honum líkaði. „Ég er enn að þannig að mér hefur líklegast líkað þetta ágætlega,“ segir Halldór og brosir.

Halldór segir að í byrjun hafi þetta eingöngu verið úraverslun, en nú séu þau komin með ansi mörg vörumerki og mikið úrval af skarti ásamt úrunum.

Mikið úrval af glæsilegum skarti

„Við byrjuðum að vera með skart árið 2002, þá vorum við langmest með innflutt skart. Síðan var svolítið gaman af því í hruninu, þá fannst mér verða vakning hjá öllum að velja íslenskt, segir Halldór og heldur áfram. „Og það held ég að hafi verið sprauta fyrir íslenska skartframleiðendur og gullsmiði að koma þá með sínar eigin línur.“

- Auglýsing -

Meðal íslenskra vörumerkja sem fást hjá Halldóri má nefna Sif Jakobs, Sign, Jens, Vera Design og By Lovisa.

„Alltaf einhver úr að gera við“

Halldór segir alltaf nóg að gera.

Aðspurður hvort alltaf sé nóg að gera á úraverkstæðinu svarar Halldór því til að svo sé. „Já það eru alltaf einhver úr að gera við,“ segir hann, snjallúrin hafi þó sett strik í reikninginn.
„Hérna í gamla daga voru menn kannski að gera meira við úr. Þau voru þá hlutfallslega mikið dýrari en í dag og því frekar gert við þau. Sumir skilja ekkert hvað úrsmiðir eru þá að gera, en það sem gerðist var að fólk á orðið svo mörg úr, þannig það er svo mikið af úrum í gangi og allskonar þjónusta í kringum þau,“ segir Halldór og bætir við að alltaf borgi sig að halda við góðum úrum. „Menn tengjast líka oft tilfinningalega þeim hlutum sem þeir bera á sér og vilja halda í.“

- Auglýsing -

Fjölskyldufyrirtæki

Halldór segir það vissulega hafa verið gaman að geta tekið við fyrirtæki föður síns.

„Ég fór oft til hans þegar maður var búinn í unglingavinnunni hérna í gamla daga og fór að læra af honum, gerði við vekjaraklukkur til að byrja með, svo stofuklukkur,“ segir hann og brosir við minningunni. „Það er leiðin að ansi mörgu held ég að kíkja á verkstæðið með pabba sínum. Eins og Íslendingar þekkja þá er vinnutíminn ansi stór hluti dagsins, þannig að það getur nú verið ansi gaman að umgangast foreldra sína þar.“

Sjálfur á Halldór tvo syni, gerir hann ráð fyrir því að þeir taki við rekstrinum þegar hann láti af störfum?

„Ég er nú ekki viss um það, þeir eru nú ekki á sömu braut og pabbi þeirra,“ segir Halldór kíminn á svip. „Strákarnir mínir báðir hafa verið hérna talsvert, þannig þeir eru svo sem aðeins búnir að fá smjörþefinn af þessu og annar þeirra hefur mikinn áhuga á þessu, þannig að við skulum bara sjá til. Best að ákveða ekkert, maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Halldór brosandi að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -