Jóhann Harðarson, íbúi á Egilsstöðum, er allt annað en sáttur eftir að hafa horft á Silfrið á RÚV á mánudaginn, og eru margir á landsbyggðinni sammála honum.
Í Silfrinu á mánudaginn síðastliðinn var meðal annars rætt við Guðmund Fetram Sigurjónsson, stofnanda og og forstjóra Kerecis, Helgu Völu Helgadóttur, lögmann og fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar og Má Wolfgang Mixa, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ræddu þau um samgöngur á Íslandi en Jóhanni Harðarsyni, eða Jói Harðar eins og hann er yfirleitt kallaður, blöskraði það sem Helga Vala hafði um flugvöllinn í Reykjavík að segja en hún er fyrrverandi formaður Velferðarnefndar Alþingis. Jói, sem er Eskfirðingur en býr á Egilsstöðum skrifaði færslu á Facebook í gær þar sem hann reifar skoðanir sínar um Silfrið. Færslan hefst á eftirfarandi hátt:
„Datt til hugar að kíkja á Silfur Egils í gærkvöldi sem var áhugavert að sumu leyti. Þar sat maður sem heitir Guðmundur Fertram Sigurjónsson sem hefur það á sinni ferilsskrá að hafa stofnað Kerecis sem er eitt mesta nýsköpunarafrek Íslendinga í seinni tíð og maður sem ég ber mikla virðingu fyrir.
Þar sat einnig fyrrverandi formaður Velferðarnefndar Alþingis og umræðan barst að flugvallarmálinu í Reykjavík. Ummæli þess aðila voru ótrúleg svo ekki sé fastar kveðið að orði. Meðal þess sem hún fullyrti var að “sjúkraflugvélin væri bara oft stödd niður við Miðjarðarhaf” sem er nátturulega svo mikil þvæla að það hálfa væri hellingur. Þar talar hún um flugvél Landhelgisgæslunar sem sinnir engu sjúkraflugi hérlendis heldur er því sinnt af einkaðilum á grundvelli útboða.“
Jói segir síðan að Helga Vala hafi gert lítið úr áhyggjum landsbyggðarfólks af sjúkraflugi og kallað það „tilfinningaklám“:
„Svo klikkti hún út með því að áhyggjur okkar sem erum háð sjúkrafluginu þegar fólkið okkar fær t.d hjartaáföll, mæður sem eru í áhættufæðingu, heilablæðingar, bílslys og aðrar þær hremmingar sem kalla á það að koma fólkinu okkar undir læknishendur því það er spurning um líf eða dauða..þetta kallaði viðkomandi aðili “ Tilfinningaklám”.
Svo talaði hún til þessa frumkvöðuls í framhaldi af þessu og kvað viðhorf hans “kjánaleg”. Ætli íslenskt samfélag þurfi ekki fleiri menn einsog og Guðmund en kannski minna af svona yfirlæti.“
Bætir Jói síðan við:
„Í alvöru talað..getur fólk ekki reynt að setja sig í spor þeirra sem þurfa á þessu neyðarúræði sem sjúkraflugið er að halda.“
Því næst rifjar Jói upp skýrslu sem birtist í Læknablaðinu árið 2022, um sjúkraflug á Íslandi:
„Í ágætri skýrslu sem birtist í læknablaðinu árið 2022 og heitir Sjúkraflug á Íslandi 2012 til 2020 koma fram ýmsar staðreyndir.
Á því 8 ára tímabili sem þar er rætt kemur í ljós að flugin voru 6011 sem þýðir 751 flug á ári (árið 2023 voru þau rúmlega 900). Flugin eru flokkuð í 4 flokka þ.e F1, F2, F3 og F4 eftir alvarleika. Flokkur F1 er mesti forgangur, F2 er möguleg lífsógn, F3 stöðugt ástand sem getur þó krafist þess að hafa lækni um borð og F4 er flutningur milli stofnana og þá á fólki sem ekki er hægt að flytja með áætlunarflugi en allir sem hafa notað þann ferðamáta vita að með því ferðast oft fólk sem varla stendur undir sér komandi úr allslags læknameðferðum í höfðuðborginni.
Skv þessari skýrslu þá voru flug í flokki F1 24,8% og F2 22,1 % sem þýðir þá c.a 353 einstaklingar á ári í þessum tveimur flokkum. Við það bætist svo flokkur F3 c.a 16 % 120 einstaklingar sem kallar stundum á nærveru læknis en er einnig vegna nauðsynjar á því að koma fólki undir læknishendur sem fyrst. Vert er að hafa í huga að aukning hefur orðið á sjúkraflugi frá því að þessi skýrsla var gerð og voru þau t.d 903 árið 2023.“
Segir Jói að nú sé staðan þannig að verið sé að „bjóða upp á rússneska rúllettu með mannslíf“:
„Nú er staðan sú í boði Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnar Íslands að það er verið að bjóða uppá rússneska rúllettu með mannslíf. Af hverju segi ég þetta? Jú vegna þess að með lokun annarar flugbrautar Reykjavíkurvallar eru möguleikar á því að koma fólki í lífshættu á Landspítlann við Hringbraut skertir verulega. Hver ætlar að bera ábyrgð á því ef til þess kemur? En gæti fólk sem talar líkt og áðurnefndur aðili gerði í þessum þætti í gærkvöldi reynt að setja sig í spor okkar sem eigum allt undir því að þessi bráðleið sé fær? Ímyndum okkur um stund að Landspítalinn væri staðsettur á Akureyri. Gæti sumt fólk þá afgreitt tölulegar staðreyndir um mikilvægi sjúkraflugs og kallað það af yfirlæti “ Tilfinningaklám” ef það snerist um þeirra ástvini?“
Að lokum segist Jóa vera misboðið og hvetur „Valkyrjurnar“ til að standa undir nafni:
„Jú þetta skiptir mig máli og mér er misboðið vegna þessa sinnu og skeytingarleysis gagnvart okkur. Því miður er viðbragðstíminn svo langur á tíðum að fólkið okkar nær ekki að komast nógu snemma undir læknishendur. Ég vona að Guð gefi það að ekki komi upp atvik þar sem snúa þurfi sjúkraflugvél frá Reykjavíkurvelli vegna trjágróðurs í Öskjuhlíðinni með aðila í krítísku ástandi. Guðmundur Fertram sagði í gær að þetta snerist um náungakærleika og það er rétt.
Skert aðgengi landsbyggðarfólks að Landspítalnum sökum lokunar flugbrautarinnar er dauðans alvara.
Nú væri kannski lag fyrir Valkyrjurnar að standa undir nafni og leysa þetta ekki seinna en strax.“
Margir taka undir færslu Jóa en Haraldur nokkur Gústafsson skifaði eftirfarandi athugasemd við færsluna:
„Hafandi sjálfur verið fárveikur farþegi í sjúkraflugi … farið í sjúkraflug með óléttri eiginkonu í miðri fæðingu … þá er ég svo innilega sammála þér með þessi skrif. Veruleikafyrring vegna mikilvægis bæði staðsetningar flugvallains í nálægð við sjúkrahús og óskerts aðgengis að vellinum er gífurleg….minnir á flökkusöguna úr frönsku byltingunni um skort á brauði og að fólk væri þessvegna að deyja úr hungri..“geta þau þá ekki bara borðað köku?”.“
Ívar Karl Hafliðason skrifaði einnig athugasemd en hann átti erfitt með að horfa á Silfrið:
„Horfði aðeins á þetta og var eiginlega svo miður mín að ég átti erfitt með að horfa á þetta! Vanvirðing gagnvart íbúum landsbyggðarinnar er svo ótrúlegt! Virðist alveg gleymast að meirihluti af tekjum sem reka ríkið koma frá landsbyggðinni og það er bara tilfinningarklám að biðja um tryggt aðgengi af bráðaheilbrigðisþjónustu. Hvað á að samgöngur og almenn heilbrigðisþjónusta sé í boði út á landi! Ég þarf eiginlega að reyna horfa á þetta aftur!“