Ákveðið hefur verið að lengja gjaldfrjálsan tíma á bílastæðum flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum úr fimm tímum eins og áformað var, upp í 14 klukkustundir.
Isavia Innanlandsflugvellir sendu rétt í þessu frá sér fréttatilkynningu þar sem sagt er frá því að gjaldtaka muni hefjast á bílastæðum við flugvelina á Akureyri og Egilsstöðum sem og í Reykjavík þann 25. júní næstkomandi. Þá hafi verið ákveðið að gjaldfrjáls tími á Akureyri og Egilsstöðum verði lengdur út fimm klukkustundir í 14 og „þannig komið myndarlega til móts við þær athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið í umræðunni um gjaldtökuna,“ eins og það er orðað í fréttatilkynningunni en Isavia mætti mjög mikilli gagnrýni vegna gjaldtökunnar, sér í lagi frá samfélagunum á Akureyri og Egilsstöðum.
Á Reykjavíkurflugvelli er búið að koma upp tveimur gjaldsvæðum, P1 og P2. Á P1 eru fyrstu 15 mínúturnar gjaldfrjálsar en á P2 eru fyrstu 45 mínúturnar gjaldfrjálsar.
Aðeins eitt gjaldsvæði er á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum en þar eru 14 fyrstu klukkutímarnir gjaldfrjálsir. Eftir það leggst 1.750 króna gjald á hvern sólarhring. Eftir sjö daga lækkar sólarhringsgjaldið nður í 1.350 krónur og 14 dögum seinna lækkar það niður í 1.200 krónur.
Þá kemur fram í tilkynningunni að aðeins sé hægt að greiða fyrir stæði í gegnum snjallforrit Autopay, í gegnum vefsíðu Autopay og með Parka appinu. Borgi fólk ekki með þessum greiðsluleiðum verður reikningur sendur, samkvæmt gjaldskrá í heimabanka, í heimabanka bílaeiganda, að viðbættu 1.490 þjónustugjaldi tveimur sólarhringum eftir að ekið er út af bílastæðinu.
Að lokum er tekið fram að allar bílastæðatekjur renni til viðkomandi flugvallar og eru ætlaðar til rekstrar og uppbyggingar bílastæða við flugvöllinn.