Allir nema einn sem lentu í rútuslysinu við Blönduós eru komnir heim til Akureyrar.
Allir farþegarnir 24 voru fluttir á sjúkrahús en sjö þeirra fóru til Reykjavíkur á Landspítalann.
„Það er einn ennþá á Landspítalanum í Reykjavík og verður þar einhverja daga til viðbótar en aðrir eru komnir heim,“ sagði Karólína Gunnarsdóttir, á velferðarsviði Akureyrar, í samtali við mbl.is um málið en hún tekur fram að ekki sé verið að reka á eftir fólki til að mæta aftur til vinnu.
„Að lenda í svona slysi tekur auðvitað á fólk. Það er margir með mar, eru skornir og einhverjir með beinbrot. Það tekur tíma fyrir fólk að ná sér enda hörmuleg upplifun fyrir það að lenda í þessu.“
„Við vorum með áfallahjálp á staðnum strax á föstudaginn og síðan erum við að fara að hitta allan hópinn á morgun. Það er búið að bjóða öllum einstaklingsviðtöl líka. Fólk er auðvitað misjafnt. Sumir þurfa á hjálp að halda en aðrir ekki,“ sagði Karólína í lokin.