Varðskipið Freyja var kallað út um helgina til að kanna aðstæður við Bessastaði í Hrútafirði þar sem hval hafði rekið á land. Áhöfnin sendi tvo léttbáta frá skipinu til að athuga aðstæður umhverfis hræið. Reyndist um 15 metra langan búrhval að ræða.

Ljósmynd: lhg.is
Samkvæmt síðu Landhelgisgæslunnar var hvalurinn nánast á þurru en á meðan beðið var flóðs voru taugar setta í sporð hans. Þar sem ekki náðist að koma Freyju nálægt landi sökum grynninga var brugðið á það ráð að nýta léttbáa skipsins til að toga dýrið út. Síðdegis á laugardag losnaði svo dýrið úr fjörunni og var dregið að varðskipinu Freyju og tengt dráttartaug.

Ljósmynd: lhg.is
Var búrhvalurinn dreginn um 30 sjómílur norður af Horni þar sem honum var sleppt utan við sjávarfallastrauma.