Þéttbýliskjarninn Eiðar í Múlaþingi hefur verið seldur. Lengi verið erfitt að finna staðnum hlutverk.
Samkvæmt frétt Austurfrétta hefur Landsbankinn tekið tilboði í eignir sem hafa verið til sölu á Eiðum. Þó hefur ekki enn verið gengið frá kaupsamningnum en eignin hefur verið tekin af söluskrá.
Síðastliðið vor tók Landsbankinn tilboði en með fyrirvörum um fjármögnum. Það tilboð gekk svo til baka.
Bankinn keypti Eiða fyrir tæpum tveimur árum. Eiðar voru áður í eigu Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndaframleiðanda en þar var um tíma rekið óperustúdíó en erfitt hefur verið að finna staðnum almennilegt hlutverk. Bankinn setti jörðina og fasteignir þar fljótlega á sölu en jörðin er 768 hektarar að stærð og eru sameiginlega fermetrar bygginga á svæðinu 4707. Aðallega má nefna byggingar sem áður tilheyrðu Alþýðuskólanum á Eiðum, til að mynda íbúðahús, kennslustofur, íþróttahús og fleira.
Samkvæmt Austufrétt var ekkert verð sett á eignirnar. Fasteignamat var 287 milljónir en brunabótamat 1,1 milljarður.
Á vefsíðunni ferdafelag.is segir að Eiðar hafi til forna verið stórbýli, höfðingjasetur og kirkjustaður. Fyrst sé Eiða getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst í kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnason, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sínum tíma, ásamt seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði.