Dodici, Lego-lið Vopnafjarðarskóla komst í fjórðungsúrslit á Norðurlandamóti í Lego-þrautum sem haldið var í Osló um helgina.
Í frétt Austurfréttar segir að árangur Vopnafjarðarliðsins sé eftirtektarverður í ljósi þess að í heild tóku 49 lið þátt í keppninni. Hin liðin komu frá Svíþjóð og Noregi en Dodici vann sér þátttökurétt með því að sigra Íslandskeppnina annað árið í röð.
Fyrirkomulag keppninnar úti var álika og í landskeppninni. Kynnti liðið hugmyndir sínar fyrir dómnefnd að orkulausnum í heimabyggð en þær fólust í vélrænu loftræstikerfi, gólfmottum sem framleiða rafmagn sem og hjólum undir skólaborðum.
Að vanda var hápunktur keppninnar lausn á þrautabraut með vélmenni sem búið var til með kubbum og Lego-tækni. Stig voru gefin fyrir bæði frammistöðu vélmennisins og hugmyndina að baki forrituninni. Þá voru veitt verðlaun fyrir liðsheild.
Segir í frétt Austurfréttar að keppnin hafi verið haldin í höfuðstöðvum Equinor sem er orkufyrirtæki norska ríkisins sem varð til er Statoil sameinaðist olíu og gasdeild Norsk Hydro. Það var liðið RoadSnack frá Norður-Troms sem bar sigur úr býtum í keppninni.