Lögreglan á Suðurlandi fylgist grannt með gangi máli í Ölfusá en ísstíflur hafa myndast nærri Selfossi og í Hvítá í Árnessýslu. Áin flæddi yfir bakka sína í gær og losnað hefur um ís nærri Ölfusárbrú og hafa stórir klakabunkar minnkað síðan þá.
„Það hefur dregið úr krapamyndun sem var gríðarlega mikil núna um helgina. Núna er áin opin alveg niður fyrir brú og þar er enn þá mikill krapi og sést ekki vatn, en rennslið er búið að minnka mikið sérlega frá því í gær, þar sem það var komið upp undir fimm metra vatnshæð,“ sagði Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri við RÚV í dag en áin er sú vatnsmesta á Íslandi og nær dýpt hennar allt niður í níu metra.
Lögreglan notast meðal annars við dróna til að skoða ánna og mun halda því áfram. Vonast er til að ísinn þiðni og skili sér út á haf. Lögreglan hvetur fólk til að fara alls ekki út á ísinn.