Berglind Einarsdóttir hefur opnað nýjan matarvagn og sá er að slá í gegn.
Allir sem elska góðan mat ættu að kíkja til Berglindar á Djúpavogi. Sagt er að maturinn hennar sé stórkostlegur og ekki skemmir fyrir að Matarvaginn hennar sé á svona fallegum stað.
„Móttökurnar hafa verið einstaklega góðar og þá sérstaklega hjá heimafólki sem kann að meta þessa viðbót við veitingaflóruna. Einn af kostum þess að búa hér eru liðlegheit og hjálpsemi íbúanna. Þegar lykillinn að hleranum stóð á sér einn góðviðrisdaginn var hálft þorpið mætt til að aðstoða,“ segir Berglind í samtali við mbl.is um Matarvagninn sem er staðsettur við höfnina á Djúpavogi.
En hvaðan fær Berglind allt hráefnið í þennan yndislega mat?
„Radísurnar okkar eru unnar hér á staðnum af Lefever Sauce Company auk þess er sinnep og Hot Sauce frá þeim á boðstólum. Við seljum líka ís frá Sauðagulli í Fljótsdal og rabarbaraísinn er sérstaklega vinsæll. Salan á ísnum hefur gengið það vel að næsta skref er að setja upp ísvél til að mæta þörfum ísþyrstra heimamanna og ferðalanga.“
„Við minnumst ekki á þokuna en stærum okkur af því óspart að eiga hitametið á Íslandi. Það eru reyndar nokkur ár síðan en sumarið 1939 mældist hiti 30,5 gráður á veðurstöðinni á Teigarhorni sem er steinsnar frá þorpinu,“ sagði Berglind að lokum brosandi