Sveitastjórn Strandabyggðar samþykkti í gær að falla frá áfrýjun dómsmáls til Landsréttar. Greiddu þrír sveitastjórnarmenn atkvæði með því að falla frá áfrýjuninni en tveir greiddu atkvæði á móti. Kemur þetta fram í frétt Bæjarins bestu.
Þorgeir Pálsson, fyrrverandi sveitastjóri og núverandi oddviti sveitastjórnar, höfðaði mál gegn sveitafélaginu. Var kröfu Þorgeirs um biðlaun hafnað af Héraðsdómi Vestfjarða og hafnaði dómurinn einnig að sveitarfélagið greiddi honum málskostnað. Dómurinn dæmdi honum þó 500.000 kr. miskabætur vegna ónærgætni við uppsögnina.
Ákvað þá fyrrverandi sveitarstjórn að áfrýja dómnum og sætti sig ekki við miskabæturnar þar sem uppsögnin var lögmæt að hennar mati.
Gæti orðið dýrt fyrir sveitarfélagið
Ný sveitastjórn er tekin við undir forystu T listans en með ákvörðun sinni í gær hefur hún fallið frá áfrýjuninni. Lögð voru fram gögn á fundinum í gær, frá Birni Jóhannessyni lögmanni Strandabyggðar en þau vörðuðu beiðni um leyfi til áfrýjunar á dómi Héraðsdóms Vestfjarða í málinu til Landsréttar. Kom fram að Landsréttur hafi fallist á áfrýjunarbeiðnina í ljósi þess að úrslit málsins hefur töluvert almennt gildi og að ekki sé útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi héraðsdóms yrði mögulega breytt sem einhverju nemi.
Í bókun T-lista kemur meðal annars fram að ekki verði litið framhjá því að breytingar hafa orðið í sveitarstjórninni og að það væri afar óeðlilegt að sveitarfélagið standi í dýrum málaferlum við kjörna fulltrúa sína. Þá séu litlir fjárhagslegir hagsmunir undir í þessu máli en frekari málaferli gæti orðið sveitarfélaginu dýrt.
Aukreitis segir í bókuninni:
„Með ákvörðun um að una niðurstöðu héraðsdóms í málinu og láta þar með staðar numið varðandi fyrrgreindan ágreining fyrrverandi sveitarstjóra og fráfarandi sveitarstjórnar er jafnframt horft til mikilvægis þess að ákvörðunin stuðli að sátt og einingu í sveitarfélaginu. Öllum má vera ljóst að mikilvægt er að eining og gott samstarf ríki við stjórn sveitarfélagsins og að horft verði til framtíðar í stað þess að dvelja við ágreining fortíðar.“
A-listinn gerði einnig sína bókun: “Við teljum mjög mikilvægt fyrir báða aðila máls, sem Þorgeir Pálsson höfðaði gegn Strandabyggð, að fá endanlegan úrskurð á æðra dómstigi. Sá dómur kynni einnig að hafa fordæmisgildi til að skýra réttarstöðu stjórnenda sveitarfélaga gagnvart vinnuveitenda sínum. Við teljum að afstaða meirihlutans fari í bága við siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Strandabyggð, þ.e. 2. og 5. grein, og við áskiljum okkur rétt til að leita álits nefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga samkvæmt 4. m.g.r 29. gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011.”