Bráðabirgðatölur lögreglunnar á Austurlandi fyrir árið 2024 varðandi helstu málaflokka liggja nú fyrir. Þar má sjá að hegningarlagabrotum fækkar lítillega frá árinu 2023 en eru svipað mörg og þau voru að meðaltali frá árinu 2015. Það sama á við um eignarspjöll, auðgunar- og ofbeldisbrot, en öll eru þau nálægt meðaltali. Skráðum kynferðisbrotum fjölgar hins vegar aðeins frá síðasta ári. Í heildina eru þau þó fá og hlutfallslegar breytingar milli ára til fjölgunar eða fækkunar geta þess vegna verið þó nokkrar.
Þá fækkar umferðarlagabrotum og eru undir meðaltali. Fjöldi ökumanna grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna er lítillega yfir meðaltali. Þar að auki fækkar skráðum fíkniefnabrotum.