Íslenska ríkið vill eignast Skrúð, auk tuga annarra eyja og skerja úti fyrir Austfjörðum.
Samkvæmt Austurfrétt hefur íslenska ríkið gert kröfur í tuga eyja og skerja úti fyrir Austfjörðum. Þekktustu svæðin eru Skrúður, Bjarnarey og Hafnarhólmi en Papey er eina eyjan á svæðinu sem kröfurnar ná ekki til.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram kröfurnar fyrir hönd íslenska ríkisins en óbyggðanefnd, sem er sjálfstæður rannsóknaraðili, fer yfir kröfurnar og aflar heimilda um eignarhald og úrskurðar um það. Nefndin hefur nú opinberlega auglýst eftir gagnkröfum en frestur til að senda þær inn er til 15. maí næstkomandi.
Fram kemur hjá Austurfrétt að kröfur ríkisins byggi á því að landsvæðin hafi verið utan landnáms, það er að segja að samkvæmt frásögnum Landámu, hafi landnámið ekki náð til svæðanna, auk þess að ekki liggi fyrir heimildir um að seinna hafi stofnast til beins eignaréttar að svæðunum.
Rökstuðningur ríkisins
Samkvæmt rökstuðningi ríkisins fyrir kröfunum segir að um sé að ræða eyjar, sker og aðrar landfræðilegar einingar sem hafi ekki þótt ábúanlegar, þó að í nokkrum atvikum hafi verið hægt að hafa af þeim ýmsar nytjar. Þá segir einnig í rökstuðningnum að þó að tilteknar jarðir eða aðilar hafi í gegnum tíðina gert ákall til þessara landssvæða, bendi heimildir ekki til að tilkallið grundvallist á beinum eignarétti, fyrir utan það að óljóst sé með hvaða hætti umræddir aðilar hafi öðlast réttindin.
Fram að þessu hefur ríkið einungis gert kröfur í land á meginlandinu en nú er sem sagt farið í svæði innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, eins og það er orðað í Austurfrétt. Líklegt þykir að þetta verði lokaverkefni Óbyggðanefndar.
Einungis ein eyja við Austfirði er undanskilin kröfunn en það er Papey. Ástæðan er sú að hún var byggð í áratugi eftir að lög um hefð tóku gildi árið 1905. Þó er lýst kröfum í sker í kringum eyjuna. Fyrir utan nafngreindar eyjar og sker úti fyrir Austfjörðum, eru gerðar kröfur í ónafngreind sker sem standa upp úr á stórstaumsfjöru. Þá áskilur ríkið sér rétt til að bæta við svæðum á rannsóknartímanum.
Hér má svo sjá lista Austurfréttar af helstu eyjum og skerjum sem ríkið vill eignast á Austfjörðum:
Álftafjörður: Vigur, Skarfakambar, Ílsker, Skipamannahólmi, Óseyjar, Marksker, Lynghólmi, Brimilsnes, Þrúða, Skeljateigur, Nesbjörg, Skjöldur, Hrómundsey, Kambur, Þvottáreyjar, Hvalbakur
Berufjörður og Hamarsfjörður: Búlandseyjar, Sandey, Berufjarðareyjar
Breiðdalur: Breiðdalseyjar, Axarsker, Stampi, Selvogur
Fáskrúðsfjörður: Æðarsker og Andey, Skrúður
Reyðarfjörður: Hólmahólmar, Seley
Borgarfjörður: Hafnarhólmi
Vopnafjörður: Bjarnarey, Skiphólmi og Miðhólmi, Leiðarhafnarhólmi