Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Ritstjóri Austurfréttar svarar frétt Moggans: „Þeir þurfa hins vegar líka að horfa inn á við“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Gunnarsson ritstjóri Austurfréttar svarar Morgunblaðinu sem kvartar yfir boðskiptum Veðurstofu Íslands þegar kemur að viðvörunum. Gunnar spyr úr því að hans litli fréttamiðill hafi náð skilaboðum Veðurstofunnar, hvers vegna náðu stóru miðlarnir þeim ekki?

Gunnar Gunnarsson ritstjóri Austurfréttar

Gunnar Gunnarsson skrifaði pistil á fréttamiðli sínum Austurfrétt, í dag þar sem hann svarar frétt Morgunblaðsins þar sem segir að takmarkaðar viðvaranir hafi borist um snjóflóðahættu á Austfjörðum aðfaranótt 27. mars. Að aðeins hafi birst tilkynning á Facebook-síðu veðurstofunnar og því hafi stærstu vefmiðlarnir misst af þeim. En Gunnar segir að vefmiðlarnir verði að líta inn á við. Segir hann bæði rétt og eðlilegt að „setja spurningamerki við boðskiptin“ en spyr þó þeirrar spurningar, að ef Austurfrétt, með aðeins tvo blaðamenn og enga skipulagða helgarvakt, hafi náð viðvörunum, hvers vegna hafi stóru landsmiðlarnir ekki náð þeim. Pistilinn má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um að takmarkaðar viðvaranir hafi borist um væntanlega snjókomu og þar með snjóflóðahættu á Austfjörðum aðfaranótt 27. mars síðastliðins. Lagt er út frá því að stærstu vefmiðlar landsins hafi þar af leiðandi ekki birt upplýsingar þar um. Þeir þurfa hins vegar líka að horfa inn á við.

Þegar líða tók á sunnudag fóru að birtast frá Veðurstofunni og Vegagerðinni viðvaranir um mögulega snjóflóðahættu. Um kvöldmat var orðið ljóst hvert stefndi og var þá komin færsla inn á bloggsíðu ofanflóðadeildar um að snjóflóð hefðu fallið þá um daginn.

Gul veðurviðvörun gekk í gildi fyrir Austfirði um klukkan níu. Þá var komin viðvörun við snjóflóðahættu og meðal annars ákveðið að loka veginum um Fagradal vegna hennar klukkustund síðar. Frá því greindi Austurfrétt. Á þeim tíma var þó ekki talin hætta í byggð og því lögð áhersla á lokun veganna.

Í frétt Morgunblaðsins
 er lagt út frá því að Veðurstofan hafi aðeins birt viðvörun á Facebook og aðeins lítið brot 38 þúsund fylgjenda hennar hafi getað séð hana þar. Á móti séu Mbl.is og Vísir með 220 þúsund manns á hverjum degi. Á svipaðan hátt og lagt er út frá því að aðeins brot fylgjenda Veðurstofunnar á Facebook hafi getað séð tilkynninguna má að sama skapi velta því upp til hversu stórs hluta markhópsins, það er að segja Austfirðinga, landsmiðlarnir tveir hefðu náð.

Eftir á er bæði rétt og eðlilegt að setja spurningamerki við boðskiptin. Fyrst Veðurstofan taldi rétt að senda út tilkynningu á Facebook, hefði ekki verið rétt að senda út tölvupóst á fréttamiðla og sveitarfélagið líka?

- Auglýsing -

En er kannski rétt að spyrja – fyrst Austurfrétt, með enga skipulagða helgarvakt og aðeins tvo blaðamenn, náði utan um viðvaranirnar – hvers vegna gerðu landsmiðlarnir það ekki líka? Kannski var það lukka að Austurfrétt skyldi taka einn vefrúnt fyrir svefninn og sjá viðvaranirnar sem komnar voru í loftið, einkum miðað við að vera á þessum tímapunkti staðsett í öðru tímabelti. Að Austurfrétt væri með Veðurappið sett upp og fékk þar af leiðandi tilkynningu um gulu viðvörunina.

En kannski var það áralöng vinna í að byggja þekkingu á svæðinu sem skipti máli. Að kvöldvaktin setti það í forgang að kanna hvað lægi að baki veðurviðvörun frekar en að endurbirta fasteignaauglýsingar sem fréttir, eitthvert dramakastið í borgarstjórn eða eitthvað álíka?

Þeim til varnar má þó halda því til haga að sunnudagurinn 26. mars virðist hafa verið ágætis fréttadagur, til dæmis með ferðafólki við Vík í vanda og umræðum um vopnavæðingu lögreglunnar. Það breytir því þó ekki hver vaktar Austurland umfram aðra.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -