Lítill áhugi er á sameiningu við annað sveitarfélag hjá íbúum Súðavíkurhrepps að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.
Haldinn var fundur þann 21. júlí um mögulega sameiningu við annað sveitarfélag en um 40 manns sóttu fundinn. Samkvæmt lagabreytingu frá 2021 þurfa sveitarfélög með 250 eða færri íbúa að sameinast öðru sveitarfélagi eða sannfæra innviðaráðuneytið að sveitarfélagið hafi getu til að sinna lögbundnum verkefnum.
Í viðtali við mbl.is rifjar Bragi upp fund sem haldinn var á Ísafirði árið 2019 af ráðuneytinu þar sem fulltrúar sveitarfélaga voru kallaðir á svæðið. „Það var víst samráðið sem átti að vera hvatinn að lagabreytingunum þegar átti að setja lög um íbúafjöldann,“ sagði Bragi og tók fram að flestir fulltrúar sveitarfélaganna hafi verið á móti sameiningu.
Þá þótti Braga sérstakt að þegar ráðuneytið gerði upp fundinn að sagt hafi verið að almenn ánægja hafi verið með áformin en Bragi hefur verið mikill gagnrýnandi laganna.