Sir Jim Ratcliffe og samtök hans, Six Rivers munu á næstunni framleiða sérstakt gin í samstarfi við sænskan ginframleiðanda. Hluti söluhagnaðarins mun renna til verndar villta Atlantshafslaxinum.
Samkvæmt heimasíðu Six Rivers segir um Íslandsdeild samtakanna: „Six Rivers Iceland er verndaráætlun sem er ekki rekin í hagnaðarskyni, sem leitast við að snúa við hnignun Atlantshafslaxa.“ Það er í því ljósi sem Sir Jim Ratcliff, stofnandi þess, hefur nú gert samning við sænska ginframleiðandann Hernö Gin, sem hlotið hefur fjölmörg verðlaun fyrir vörur sínar. Meðal annars hefur fyrirtækið hlotið fengið verðlaun fyrir besta gin og tóník á Alþjóðlegu vín- og áfengiskeppni IWSC og það þrisvar sinnum, sem er oftast allra.
Í tilkynningu, sem Austurfrétt segir frá, segir að Sir Jim Ratcliffe hafi heimsótt framleiðsluna í Harnösand í Norður-Svíþjóð og í kjölfarið hafið viðræður sem nú hafi borið árangur.
„Hernö liðið hefur mikla ástríðu fyrir framleiðslu sinni og löngun til að skila ekki bara af sér ginflösku heldur upplifun,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.
Hið nýja Six Rivers gin byggir á hefðbundnu Hernö gini sem inniheldur einiber, kóríanderfræ, mjaðjurt, títuber og sítrónubörk en íslenskum fjallagrösum er bætt við sem og vallhumli, til að laða fram hið íslenska bragð eins og það er orðað í frétt Austurfréttar.
Six Rivers ginið verður fyrst og fremst selt í Bretlandi og á Íslandi en ákveðinn hluti af andvirði hverrar seldrar flösku mun renna til baráttu Six Rivers til verndar villta Atlanthafslaxinum.