Eldur kom upp í bíl upp á Mjóafjarðaheiði frá Fljótdalshéraði í gærkvöldi. Sjö manna fjölskylda var í bílnum en allir sluppu ómeiddir.
Samkvæmt frétt Austurfréttar var slökkvilið frá Egilsstöðum og Reyðarfirði kölluð út í gærkvöldi um klukkan hálf sjö vegna elds sem kom upp í bíl sem staddur var á Mjóafjarðarheiði. Sjö manna fjölskylda var í bílnum er eldurinn kom upp en komst út án meiðsla.
Bíllinn var að verða kominn upp á Mjóafjarðaheiðina, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði Múlaþings, þegar skyndilega dó á honum. Eldtungur blossuðu upp úr húddinu en fjölskyldunni, sem samastendur af pari og fimm börnum, tókst að koma sér út úr bifreiðinni og slapp heilu á höldnu.
Um 20 mínútum eftir að útkallið barst voru tveir slökkvibílar frá Egilsstöðum mættir á vettvang en þá var bíllinn alelda. Stuttu síðar kom þriðji brunabíllinn frá Slökkviliði Fjarðarbyggðar. Fram kemur í frétt Austurfréttar að greiðlega hafi gengið að slökkva eldinn.
Á meðan á aðgerðum stóð var vegurinn lokaður en töluverð umferð var til og frá Mjóafirði. Ekki er vitað um eldsupptök.