Stjórn Herjólfs ohf. sagði ekki aðeins upp á dögunum, skipstjóranum sem varð uppvís að því að sigla án réttinda, heldur sagði einnig upp öðrum skipstjóra Herjólfs.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs var öðrum skipstjóra Herjólfs sagt upp störfum á miðvikudaginn síðastliðinn. Eftir stendur því einn skiptstóri, Sigmar Logi Hinriksson. Sigmar Logi sagði upp störfum á Herjólfi í janúar síðastliðnum eftir að upp komst um brot starfsfélaga hans, skipstjórans sem sagt var upp störfum á dögunum. Hefur hann nú verið ráðinn aftur sem skipstjóri en það hefur vakið athygli sumra Eyjamanna að ungur sonur hans hafi verið ráðinn sem fyrsti stýrimaður, fram yfir eldri og reyndari menn.
Sjá einnig: Skipstjóra Herjólfs loksins gert að hætta – Reiknar með að þetta gerist ekki aftur
Skipstjórinn sem nú var sagt upp störfum veit ekki ástæðuna fyrir uppsögninni, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs. Telur hann uppsögnina ólöglega því ekki komi ástæðan fram í uppsagnarbréfinu og íhugar hann að kæra uppsögnina. Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs hefur verið afar erfiður mórall um langt skeið um borð í Herjólfi. „Þetta er bara búið að vera hrikalegt. Alveg gríðarlega erfitt og búið að vera það lengi. Það hlýtur að vera eitthvað að þegar starfsmannaveltan er eins og hún er búin að vera. Áttatíu prósent yfirmanna í skipinu eru farnir. Allir nema einn af þeim sem komu að smíðinni á skipinu eru hættir.“
Mannlíf hringdi í framkvæmdarstjóra Herjólfs, Hörð Orra Grettisson til að spyrja hann út í uppsögnina en hann neitaði að tjá sig, sagðist ekki geta tjáð sig um starfsmannamál. Hann staðfesti þó við mbl.is um daginn að skipstóranum sem sigldi án starfsleyfis, hafi verið gert að hætta.
Er Mannlíf hringdi í Sigmar Logi vildi hann aukreitist ekkert tala við blaðamann Mannlífs.
Skipa á nýja stjórn í félaginu næstkomandi fimmtudag.