Sveitarstjóri Grýtubakkahrepps er ósáttur við skerta póstþjónustu.
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri, segir að skerðing á póstþjónustu á landsbyggðinni sé hættulegt skref að taka og veiki byggð á landinu. Útibú Póstsins hefur hingað til verið í Jónsabúð á Grenivík og hefur Pósturinn greitt fyrir það, en ekki lengur því að útibúinu verður lokað.
„Þannig að það veikir grundvöllinn fyrir búðarrekstri á staðnum. Það er auðvitað það sem við höfum áhyggjur af,“ sagði Þröstur í samtali við RÚV um málið. En stendur til að loka pósthúsum á landbyggðinni á næstunni og koma upp póstboxum.
„En eins og Pósturinn segir hefur póstþjónusta dregist mikið saman síðustu ár, og pósturinn vill halda því fram að það sé bara vegna tæknibreytinga en það er líka vegna þess að þeir hafa dregið svo mikið úr þjónustunni. Það sem var dagleg þjónusta er komin niður í tvisvar í viku,“ og þá hafi skipulagsbreytingar Póstsins gert þjónustuna verri.
„Og það auðvitað hefur flýtt fyrir þessari þróun.“