Á síðasta fundi sínum tók sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sérstaklega til umræðu áhrif af sláturskipum í fiskeldi og áhrifum þeirra á rekstrartekjur hafna. Lýst var yfir áhyggjum af málinu og vill sveitarstjórnin setja ákvæði í lög um starfsemi og notkun sláturskipa hér við land.
Samkvæmt Bæjarins bestu er tilefni bókunarinnar það að tvívegis hafi komið til lands fyrir vestan norskt sláturskip til þess að aðstoða við slátrun á laxi úr kvíum, þegar ástæða var talin vera fyrir slátrun og öruggt að sláturhúsið á Bíldudal gæti ekki annað þörfinni. Laxinum er þá slátrað út við kvíarnar og þannig þarf ekki að landa fiskinum í innlendri höfn. Verða þá hafnirnar af aflagjaldi. Vestubyggð hefur meðal annars kallað eftir lagabreytingum til þess að bregðast við aðstæðum sem þessum.
Hér er bókun sveitarstjórnar í heild:
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tekur undir með stjórn Hafnasambands Íslands þar sem hún lýsir yfir áhyggjum af notkun og starfsemi sláturskipa í fiskeldi og þeirra neikvæðu áhrifa sem þau hafa á rekstrarumhverfi hafna. Þá er tekið undir hvatningu stjórnar hafnasambandsins til þess að starfsemi og notkun sláturskipa í fiskeldi verði sérstaklega
tekin til skoðunar og sett verði skýr ákvæði í lög og reglugerðir um starfsemi og notkun sláturskipa hér við land. Samhliða þeirri vinnu verði horft til endurskoðunar á ákvæðum hafnalaga nr. 61/2003 vegna fiskeldis, sem hafnasambandið hefur hvatt til að verði endurskoðuð.
Í frétt bb.is kemur fram að tæpt sé á málinu í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar en þar kemur fram að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku af fiskeldi.