Ekki stóð heimsmet Barkar NK, sem hann setti fyrir helgi en í gær bætti Vilhelm Þorsteinsson EA metið. Landaði skip Samherja 3.448 tonnum af loðnu í Fuglafirði í Færeyjum. „Þessi systurskip eru þau burðarmestu í flotanum, metin falla með öðrum orðum hratt á þessari stærstu loðnuvertíð um langt árabil,“ segir á vef Samherja.
Samkvæmt Akureyri.net tók rúmlega tuttugu klukkustundir að dæla úr Vilhelmi Þorsteinssyni í Fuglafirði og sagði Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri að Færeyingar hafi verið mjög svo ánægðir með gæði aflans og fituinnihald.
„Staðan er einfaldlega sú að bræðslurnar á Íslandi hafa ekki undan þegar vel veiðist og þess vegna var stefnan tekin á Færeyjar, siglingin er hátt í þrjú hundruð sjómílur frá miðunum austur af Langanesi. Við fylltum skipið í sjö holum, stærsta holið var 600 tonn og þá drógum við aðeins í eina og hálfa klukkustund. Annars vorum við oftast að draga í sex til átta klukkustundir, þannig að þetta gekk allt saman mjög vel, að vísu þurftum við að lóna í um hálfan sólarhring vegna brælu,“ segir skipstjórinn á vef fyrirtækisins. Að sögn Guðmundar er aflanum dælt beint í vinnslu en ekki í tanka eins og tíðkast yfirleitt á Íslandi.
„Nei við erum nú ekkert sérstaklega að keppa á þessum systurskipum um Íslandsmetin, þetta eru einfaldlega mjög góð og öflug skip með mikla burðargetu. Það skiptir mestu að koma með gott hráefni að landi og þessi skip eru vel búin á allan hátt. Þannig var meðalhitinn á hráefninu 2,1 gráða þegar því var dælt til verksmiðjunnar.“
„Við leystum landfestar í Fuglafirði á sjöunda tímanum í morgun og nú er bara að sigla á miðin. Veiðin hefur verið góð undanfarna daga og verður vonandi svo áfram. Það verður væntanlega nokkuð þröngt á miðunum, því norski flotinn er mættur á svæðið. Þetta nýja skip hefur reynst afar vel og það var ánægjulegt að sigla í land með fullfermi. Við hugsum á svipuðum nótum og landsliðið í handbolta, fókusinn er á næsta túr.“