Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Þegar ég og fimm vinir mínir gengum berserksgang á Egilsstöðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ætli árið hafi ekki verið 2001. Svona sirka. Það var föstudagskvöld að vetri til og við vorum sex félagarnir á pöbbarölti á Egilsstöðum. Já, það er hægt. Eins og oft vildi til á þessum árum, og sjálfsagt er það þannig enn, þá voru föstudagskvöldin ívið daufari en laugardagskvöldin. Og árið 2001 var engin Vika með Gísla Marteini til að stytta unga fólkinu stundir á föstudagskvöldum. Athugið að nöfnum hefur verið breytt.

Við fórum sem sagt á bar sem bar hið frumlega nafn Ormurinn. Fyrir utan okkur vitleysingana og barþjóninn, var staðurinn tómur. Við ákváðum þá að rölta yfir götuna og yfir á barinn á Hótel Héraði. Hann var dýrari og leiðinlegri en við ákváðum samt að prófa. Þegar við komum þangað var næturvörðurinn að loka barnum enda klukkan orðin þrjú að nóttu og ekki sála á barnum. Við ætluðum þá að láta okkur hafa það og halda drykkjunni áfram á Orminum. Það vildi ekki betur til en svo að þeim bar var einnig lokað, þar sem fjöldi gesta, sem var 0, svaraði ekki launakostnaði.

Hvað gátu þá hressir, ungir karlmenn með töluvert áfengi í æðum til bragðs tekið? Farið heim að sofa? Ekki að ræða það.

Við byrjuðum á að stela fánum frá fyrirtækjum í nágrenninu. Ég gerði heiðarlega tilraun til að taka fánastöng upp úr festingu sinni fyrir framan 10/11-verslun sem þá var á Egilsstöðum. Það tókst ekki betur en svo að ég missti stöngina og braut þar með kúluna sem var efst uppi. Það átti eftir að verða hópnum að falli síðar meir.

Við gengum svo um bæinn í leit að fjöri en tveir úr hópnum, sem við skulum kalla Vékel og Fífil, ákváðu að fara inn í garð hjá einhverju fólki og inn í tréhús sem þar stóð. Þar fóru þeir að leika apa með tilheyrandi gólum og ólátum. Okkur til skelfingar rauk húsbóndinn á heimilinu út úr húsi sínu, vopnaður hafnaboltakylfu. „Hvað eruð þið að gera? Af hverju eruð þið að eyðileggja margra mánaða vinnu sonar míns?“ öskraði maðurinn reiður. Hann var auðvitað að misskilja okkur, við vorum ekkert að skemma, bara skemmta. Við hlupum skelkaðir í burtu.

Stuttu seinna ákváðum við að nóttin væri ung og nú skyldum við fara í leik. Við skiptum okkur í tvo hópa. Ég, Vékell og Jörfi vorum saman í hóp en í hinum hópnum voru þeir Fífill, Tímóteus og Herleifur. Liðin fóru svo hvort á sinn enda Egilsstaða. Leikurinn, sem var nokkuð óskýr enda við frekar óskýrir þegar hér var komið sögu, fólst í því að það lið sem næði að læðast upp að hinu liðinu og bregða því, myndi vinna.

- Auglýsing -

Þegar leikurinn stóð sem hæst tók ég eftir því að bæði lögreglan og pabbinn með hafnaboltakylfuna, voru á ferðinni í leit að okkur. Ég hringdi í Herleif, sem nú starfar sjálfur sem lögreglumaður, og hvíslaði að honum í símann að lögreglan væri á eftir okkur. Í fyrstu trúði hann mér ekki, en sá svo fljótt að ég var ekki að ljúga þessu enda vel upp alinn maður. Náðu bæði liðin að fela sig fyrir lögreglunni en annað má segja hvað varðar pabbann.

Þegar þeir Tímóteus og Fífill voru að ganga yfir gangbraut birtist bíll skyndilega við hlið þeirra og voru þeir sem hreindýr í háu ljósunum, augun uppglennt og munnurinn galopinn. Pabbinn skrúfaði niður framrúðuna og leit út og sagði hvass: „Hvurn andskotann eruð þið að gera? Af hverju eruð þið að láta eins og smákrakkar, hálffullorðnir menn?“ Það eina sem Tímóteusi datt í hug að segja var eitthvað sem pabbinn er enn að klóra sér í hausnum yfir, nú 20 árum síðar. Hann skrollaði ekki venjulega, en þarna ákvað hann að prófa það í fyrsta skipti. „Menn? Við erum ekki menn, við erum dvergar!“ Og svo hlupu þeir í burtu og skildu pabbann eftir orðlausan.

Um klukkan 6 um morguninn hittumst við allir heima hjá mér og fórum yfir atburði næturinnar, búnir á því og með harðsperrur af hlátri.

- Auglýsing -

Daginn eftir mættu þeir Herleifur og Vékell til vinnu í 10/11. Verslunarstjórinn, Sæsól, var ekki ánægður enda var bæði búið að stela fána verslunarinnar og brjóta kúluna á fánastönginni. Verslunarstjórinn, sem er mjög fyndin kona, kíkti á myndbandsupptökur frá nóttinni og sá þar ungan og bráðmyndarlegan mann með kleinuhringjaskegg í slagtogi með öðrum ungum manni og taldi sig vita upp á hár hver þetta væri. Þetta væri Fáskrúðsfirðingurinn Elentínus en hann bar jafn fallegt skegg og sá sem sást brjóta kúluna. Þegar þeir Herleifur og Vékell sáu fram á að Elentínus fengi skellinn, blásaklaus, urðu þeir að segja yfirmanni sínum sannleikann. Hún sprakk sem betur fer úr hlátri en ég þurfti að greiða 2.000 krónur í sekt.

Það var vel þess virði.

Þessa sögu og fleiri má hlusta á í nýjasta HEIMSKast-þætti okkar Adams. Hér er hlekkur til dæmis, en svo má einnig hlusta á hann á Spotify.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -