Þýðingar á bókum Gunnars Gunnarssonar hlutu hæstu úthlutun Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar. Hlutu 400 þúsund krónur hvor.
Í vor auglýsti Menningarsjóður Gunnarsstofnunar eftir umsóknum með sérstaka áherslu á list- og miðlunarverkefni tengd austfirskum menningararfi sem og verkefni tengd ritverkjum og ævi Gunnars Gunnarssonar. Þau verkefni sem stjórn sjóðsins ákvað að styrkja mest var annars vegar þýðing Aðventu yfir á hebresku til útgáfu í Ísrael og hins vegar norsk þýðing og útgáfa á 12 smásögum Gunnars Gunnarssonar. Hljóta verkefnin 400 þúsund króna styrk hvort.
Þá hlaut Hnikun, sem er bókverk tengt sýningu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, þar sem unnið er með sögu hússins, 300 þúsund krónur frá sjóðnum. Einnig hlaut verkefnið „Dwelling on the banks of Jökla“ – könnun á sambandi mannfólks og ómennskrar náttúru við Jöklu, 100 þúsund króna styrk. Að lokum veitir sjóðurinn Gunnarsstofnun einnig styrk vegna nýrrar miðlunar á Skriðuklaustri til að koma Ugga litla Greipssyni úr Fjallkirkjunni yfir í viðaukinn veruleika (AR)
Heildarúthlutun úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar þetta árið nemur 2,2 milljónir króna.
Menningarsjóður Gunnarsstofnunar var stofnaður árið 2013 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum en samkvæmt skipulagsskrá er tilgangur hans tvíþættur: annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar.