Harður árekstur varð við Eskifjörð á laugardag en einn var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús. Þá voru tveir einstaklingar fluttir á sjúkrahús eftir sitt hvort vinnuslysið í fiskvinnslum Austanlands á föstudag.
Austurfrétt segir frá því í dag að harður árekstur hafi orðið á móti Eskifjarðarvegar og Norðfjarðar á laugardag en þar skullu saman tveir bílar sem komu úr gagnstæðum áttum. Bíll var að koma frá Norðfirði og beygði í átt til Eskifjarðar í veg fyrir bíl sem kom ofan af Hólmahálsi. Ökumaður annars bílsins var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en hann var einn í bílnum. Reyndist hann ekki mikið slasaður. Fjórir voru í hinum bílnum en fengu allir að fara heim eftir skoðun læknis sem mætti á vettvang. Báðir voru bílarnir óökufærir eftir áreksturinn.
Þá segir Austurfrétt einnig frá tveimur vinnuslysum sem urðu í austfirskum fiskvinnslum á föstudag. Starfsmaður klemmdi hönd sína í færibandi í því fyrra en hann var fluttur nokkuð slasaður á Sjúkrahúsið á Akureyri. Í hinu slysinu varð starfsmaður fyrir soðvatni í fiskimjölverksmiðju en hann var fluttur þó nokkuð slasaður á sjúkrahús til aðhlynningar.
Vinnueftirlitið rannsakar tildrög slysanna með aðstoð lögreglunna á Austurlandi.