Í síðustu viku var brúargólf nýju brúarinnar yfir Stóru-Laxá steypt. Veðrið var stillt og gekk steypuvinnan afar vel en hún stóð yfir samfellt í 30 klukkustundir.
Samkvæmt frétt Vegagerðarinnar var byggð yfirbygging yfir brúna vegna veðurs og tjaldað yfir og niður með hliðum að jörð. Þá var kynt undir bæði brúargólfið og tjaldað yfir það áður en steypt var, þannig að inni var um 10°C hiti er vinnan hófst. Ekki er vitað til þess að slík yfirbygging hafi verið byggð yfir brú með þessu lagi áður hér á landi.
Í fyrradag hófst síðan vinna við uppspennu brúardekksins. Er búist við að sú vinna taki um tíu daga en að því loknu verður hægt að fjarlægja undirslátt og opna yfir rennsli undir alla brúna. Vegna yfirvofandi flóðahættu 19. janúar síðastliðinn var vegurinn við brúna rofinn og þar sem sú hætta er enn til staðar er ekki talið skynsamlegt að fylla strax í skarðið í veginum. Því verður Skeiða- og Hrunamannavegur lokaður um sinn við brúna.
Sunnlenska skrifaði fréttina einnig.