Römpum upp Ísland verkefnið gengur mjög vel en nú stendur yfir lokakafli verkefnisins þetta sumarið, Austurlandið.
Samkvæmt Austurfrétt hafa nú allt að 800 rampar verið settir upp um nánast allt land en það eru samtökin Römpum upp Ísland sem stendur fyrir verkefninu en stefnt er á að setja upp 1.500 rampa fyrir marsmánuð 2025. Þykir ljóst að það muni takast og rúmlega það. Tilgangur verkefnisins er að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra og eldri borgara að stofnunum og fyrirtækjum um allt land, þeim að kostnaðarlausu. Hvatamaðurinn að þessu metnaðarfulla verkefni er Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno.
Atli Freyr Ríkharðsson verkstjóri, segir að það hafi gengið betur en búist var við en að Austurlandið sé í raun síðasti fjórðungurinn sem verður rampaður upp þetta sumarið. Hafa þeir lokið vinnu á Borgarfirði eystra, Seyðisfirði og Djúpavogi og vonast til að klára á Egilsstöðum og Fellabæ fyrir eða um helgina.
„Þá færum við okkur strax yfir í Fjarðabyggð sem er þá í raun lokaáfanginn að sinni en við tökum svo upp þráðinn að nýju næsta vor og höldum áfram. Þetta hefur gengið afar vel og okkur undantekningarlítið tekið vel enda gagnast þetta svo mörgum og ekki aðeins hreyfihömluðum heldur öllum þeim sem eiga bágt með gang,“ sagði Atli Freyr í samtali við Austurfrétt.