Markaðstorg Kengúrunnar
„Kengúra til sölu, kostar eina tölu,“ hrópaði unga stúlkan með ónýtu eldspýturnar á markaðstorgi guðanna.
„Farðu heim, unga stúlka,“ hrópaði gamli maðurinn með veðurbarna andlitið, sem alla sína ævi hafði unnið hjá rafveitunni, um leið og hann tók stóran sveig framhjá rithöfundinum sem hafði nýlega bæði sagt skilið við konu sína og bókaforlag sitt.
„Já, farðu heim, ha, ha, ha,“ heyrðist í rithöfundinum en ekkert sást brosið.
„Það vill enginn kaupa kengúruna mína,“ var það síðasta sem unga stúlkan með ónýtu eldspýturnar á markaðstorgi guðanna sagði áður en hún hélt, ásamt kengúrunni, döpur í bragði heim í hreysið sem varla getur kallast heimili, þar sem drykkfelldur og ofbeldisfullur faðir og útslitin móðir tóku á móti henni.
Kengúran grét áströlskum tárum.
Á rölti
Eftir langa göngu um bæinn minn í ausandi rigningu og logni, þar sem hugsanir mínar breyttust í strangflatarlistaverk eftir sjálfan mig, kom ég við í bakaríi og keypti kleinu, súkkulaðisnúð, sérbakað vínarbrauð og þrjár fernur af sykurskertri kókómjólk.
Afgreiðslukonan brosti blítt, horfði með óræðnum svip á mig með sínum fallegu brúnu augum og sagði að það færi mér vel að vera með blautt hár.