Þrátt fyrir andúð nágranna minna á því atferli mínu að henda brauði fram af svölunum hefur mér aldrei komið til hugar að hætta því.
Að horfa á fuglana í garðinum af efstu hæð í fjölbýlishúsi er góð afþreying og fær mann til að hugsa.
Að horfa á fuglana slást um eina brauðsneið en líta framhjá þeim þremur brauðsneiðum sem eru rétt hjá þeirri sem slegist er um hefur lengi valdið mér heilabrotum.
Kannski eru fuglar og menn ekki eins ólíkir og maður skyldi ætla?
Erum við mennirnir ekki alltaf að berjast innbyrðis um eitthvað sem nóg er af?
Og alltaf látum við sigurvegarann eiga megnið af brauðinu, en hlaupum með smá mola eða mylsnu í felur, hræddir eins og litlir fuglar.