Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Þetta eru átta skemmtilegustu fjöll á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslensk fjöll búa yfir fjölbreytileika. Það er ekki til einn mælikvarði á það hvert þeirra sé fegurst eða búi yfir mestu aðdráttarafli. Þetta ræðst af sjónarmiðum og upplifun hvers og eins. Hér verða talin upp 8 áhrifamestu fjöll að mati greinarhöfundar ásamt stuttum rökstuðningi.
Glissa í Árneshreppi er uppáhaldsfjallið. Fjallið er á Trékyllisheiði, fyrir botni Reykjafjarðar. Almennt var ekki gengið á fjallið fyrr en fyrir nokkrum árum þegar frænkur úr Árneshreppi gerðust frumkvöðlar.

Á Glissu. Frumkvöðlarnir og frænkurnar Unnur Pálína Guðmundsdóttir og Guðrún Gunnsteinsdóttir.

Nokkur áskorun er að fara þá leið sem þær fundu og liggur yfir bratt gil og svo um skarð í klettabeltinu sem í dag nefnist Unnarskarð, annarri þeirra til heiðurs. Ferðafélag Íslands lét stika leiðina frá Smalavegi og upp á topp. Margir hafa síðan farið á fjallið. Nafnið Glissa er talið vísa til gleiðrar skessu en fjallið er V-laga. Dulúð fjallsins og sá kraftur sem það býr yfir hefur heillað marga. Ganga þarf 11 kílómetra frá Melahálsi til að ná toppnum. Hækkun er um 500 metrar. Gangan er fullkomlega þess virði.

Úlfarsfell. Þetta fjall er á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, sannkölluð perla í hjarta höfuðborgarsvæðisins. Fjórar aðalleiðir eru upp fjallið. Fólk getur valið um skógarstíg frá Skógræktinni í Mosfellsbæ eða vel hannaðan stíg upp frá Skarhólabraut. Flestir fara upp Reykjavíkurmegin þar sem fylgja má vegslóðum.

Með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Úlfarsfelli.

Einn ein leiðin er fyrir fjallahjól. Sá stígur er einnig í landi Reykjavíkur. Úlfarsfell hentar jafnt ungum sem öldnum. Þægilegt fjall með mörg andlit. Hækkun á göngu er rúmlega 200 metrar. Vegalengd er allt að fjórum kílómetrum. Ferðafélag Íslands hefur haldið úti opnum göngum á fjallið á fimmtudögum um árabil.

Búrfell í Hálsasveit er í þriðja sæti á listanum. Hugsanlega er það vegna þess að þetta er fjall bernsku minnar og trónir yfir samnefndum bæ. Þeir sem ganga á Búrfell mega ekki láta hjá líða að ganga með fram Rauðsgili og skoða undurfagra fossa gilsins. Tilvalið er að hefja gönguna á Búrfell við bæinn Rauðsgil. Eftir að fjallið, sem er 400 metra hátt, hefur verið toppað er sniðugt að fara yfir Fellaflóann, beint að Tröllafossi og njóta þeirrar hrikalegu fegurðar sem þar er að finna. Gilinu er svo fylgt áleiðis niður þar sem fossarnir standa í röðum. Einiberjafoss, Laxfoss, Ólafsfossar og Bæjarfoss verða á vegi göngumanns. Gangan er alls um 9 kílómetrar.

Eiríksjökull er í fjórða sæti listans. Það er ekki einfalt að komast á uppgöngustað í Torfabæli. Þangað liggur vegslóði sem er þó aðeins fær öflugum jeppum. Eiríksjökull er hæsta fjallið á vestanverðu Íslandi, 1.672 metrar. Hækkun á göngu er um 1.000 metrar. Fjallið talið vera með þeim elstu á landinu. Eiríksjökull er gríðarlega áberandi frá uppsveitum Borgarfjarðar og frá Miðfirði í Húnavatnssýslu.

- Auglýsing -
Efst á Eiríksjökli. Strútur í baksýn.

Af toppi hans er gríðarlega víðsýnt. Botnssúlur, Langjökull, Þórisjökull, Geitlandsjökull og Ok blasa við göngufólki. Snæfellsjökull rís í vestri. Strandafjöllin og fjöllin í Húnavatnssýslu birtast í fjarlægð. Það tók nokkurn tíma fyrir gönguhópinn að finna hæsta punkt á fjallinu. En með þrjú leiðsögutæki til hjálpar tókst að finna hæsta punkt.

Esjan. Það verður ekki undan því vikist að nefna bæjarfjall Reykvíkinga. Þessi fjallabálkur er með ótal andlit og það er langtímaverkefni að ganga allar þær leiðir sem eru í boði. Algengast er að ganga upp að Steini sem er tæplega 600 metra hækkun og sjö kílómetra ganga. Þetta er ein vinsælasta gönguleið á Íslandi og líklega aðeins gönguleiðin um Reykjadal við Hveragerði sem nýtur álíka vinsælda. Að vestanverðu er gjarnan gengið upp Smáþúfur og þaðan á Kerhólakamb. Sumir fara svonefndan Blikdalshring og koma niður frá Dýjadalshnúk. Að austanverðu eru mörk Esjunnar við svonefnd Laufskörð sem tengja Esjuna við Móskarðahnúka. Tilvalið er að ganga á Hátind og þaðan um Laufskörð. Sú gönguleið er vinsæl og það er jafnan nokkur þolraun fyrir lofthrædda að fara um Skörðin. Auk þessa er vinsælt að ganga upp frá Kjósinni þaðan sem um nokkrar leiðir er að velja. Lengi vel var talið að Hátindur væri hæsti punktur Esjunnar en seinna kom í ljós að Hábunga er hæst, um 914 metrar.

Vífilsfell. Þetta fjall er eitt það fjölbreytilegasta á höfuðborgarsvæðinu. Vífilsfell er afar fjölbreytt og fagurt. Hermt er að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarssonar, sem bjó á Vífilsstöðum hafi gjarnan skottast á fjallið, alla leið úr Garðabænum núverandi, til að athuga með sjóveður.

- Auglýsing -
Gönguhópur við seinasta hjallann upp Vífilsfell.

Vífilsfell er 655 metra hátt. Hækkun á göngu er um 305 metrar. Gangan er sjö kílómetrar á flatlendi, um skriður og móbergsklappir. Gangan upp fjallið getur verið erfið þegar aðstæður eru þannig. Eftir að komið er upp brattan stíg tekur við sandsteinn þar sem fólki getur auðveldlega skrikað fótur. Til að komast upp á efsta tind þarf fólk að klöngrast upp í gegnum klettabelti. Flestir skilja göngustafi sína eftir og nota hendur til stuðnings upp klettana. Þegar nálgast blátoppinn er reipi til að fikra sig upp seinasta hjallann. Vífilsfell er í seinni tíð þekkt sem sviðsmynd í Stuðmannamyndinni Hvítir mávar. Egill Ólafsson stendur með uppstoppaðan fugl á klettabrún. Flogið var með hann í þyrlu upp. Af toppnum er frábært útsýni um höfuðborgarsvæðið.

Kirkjufell. Ein af stærri áskorunum venjulegs fjallgöngufólks er Kirkjufell í Grundarfirði, 463 metrar. Þetta snarbratta, formfagra og lífshættulega fjall virkar sem segull á marga. Ganga á fjallið er öll á fótinn. Göngufólk þarf að klöngrast upp klettabelti og eftir einstigi með fram klettum. Á nokkrum stöðum eru reipi til að fikra sig upp fjallið. Þar á meðal við seinasta áfangann. Fjallið er alls ekki fyrir lofthrædda. Af efsta tindi er frábært útsýni. Við göngufólki blasa Helgrindur, ofan Grundarfjarðar. Þá er af fjallinu útsýni yfir Kvíabryggju þar sem fyrirmyndarfangar eru í lausagöngu. Hækkun á göngu er um 440 metrar. Reikna má með 5 tímum í það verkefni að klífa Kirkjufell.

Esjan. Við klettana á Þverfellshorni.
Rauðsgil. Búrfell í baksýn.
Á Esjunni með fjölmiðlafólki.

Kaldbakur. Þetta hæsta fjall Vestfjarða er 998 metra hátt þar sem það rís hæst í hinum svokölluðu vestfirsku Ölpum. Hægt er að aka upp í allt að 400 metrum um Kirkjubólsdal í Dýrafirði og hefja gönguna þaðan.

Á toppi Kaldbaks. Greinarhöfundur ásamt Sigurði Hafberg.
Kirkjufell. Gönguhópur að leggja á fjallið.

Önnur áhugaverð fjöll sem vert er að nefna eru Fjallið eina, Hrafnabjörg, Skáneyjarbunga, Krákur, Helgafell í Hafnarfirði, Þorfinnur við Önundarfjörð, Keilir, Vörðuskeggi á Hengli og Þorbjörn í Grindavík. Hér er að finna greinina í Ferðalaginu, tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -