Ég finn hana leysast upp.
Get ekki beðið þangað til hún fer og lætur mig í friði um leið og hún heltekur mig.
Stelpan með stálaugun og sál ísbjarnarins segir mér að eitt sinn hafi hún hlustað á See Emily Play þrjátíu sinnum í röð og hvað það sé gott að fá sér í glas á virkum degi á tóman maga.
Vil ekki standa upp en er hvattur til þess af rauðhærðum skrifstofumanni sem lítur út fyrir að þrá rækjusamloku og litla kók í gleri.
Lesblindur pappírsdrengur sest við hliðina á okkur og talar um útskúfun og gaddavírsgirðingar; íklæddur fjólubláum ruslapoka og hefur límt sígarettupakka á hnakkann á sér.
Ég spyr hann hvort hann fái ekki höfuðverk af líminu en hann segir það valda sér vellíðan; hann verði þó að hætta að reykja því hann sé orðinn svo andfúll.
Mamma hans kemur í þessum töluðum orðum á fleygiferð, enda á norskum gönguskíðum sem framkalla hljóð sem minnir á hugarheim Syd Barrett og fjórfaldan hugsunarháttinn sem nýlega var samþykktur í borgarráði með öllum greiddum atkvæðum.
Mamman spyr okkur hvort við viljum ekki nýbakaðar lummur og ískalda mjólk.
Við hrópum:
Já, takk!
Göngum svo áleiðis upp veginn til Laugarbakka og ég er þakklátur fyrir að hún hafi náð fullri virkni og gefi mér allt sem hún á nema rauðu kápuna og gráu dragtina en forsetinn var búinn að fara fram á að fá þetta gefins á meðan hann dansaði frá sér allt vit í takt við hugmyndaflug stelpunnar með stálaugun og sál ísbjarnarins.
Hún segir mér að halda kjafti og að hún heiti Arna.