Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Tvær örsögur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir brunann

Eftir brunann var Sigmar afskræmdur á líkama og sál.

Hann gat ekki lengur horft í spegil og vildi helst ekkert gera né segja.

Alltaf þegar hann var við að gefast upp og bjóst til að hitta konu sína í himnaríki, hugsaði hann til orða afa síns, Engilberts, sem honum þótti svo vænt um:

„Það vilja allir verða gamlir en enginn vill vera gamall. Það er þó betra að vera gamall en dauður, er ég nokkuð viss um, en get þó eðlilega ekki alveg fullyrt um að sú sé raunin.“

Með þessi orð í huga hélt Sigmar lífsviljanum gangandi og gat af og til litið í spegil án þess að brotna niður og aldrei datt honum í hug að brjóta spegilinn því það boðaði sjö ára ógæfu.

- Auglýsing -

 

Í hvaða herbergi ertu?

„Jokerman dance to the nightingale tune, bird fly high by the light of the moon“ raular ungi óreyndi drengurinn á hótelinu á Snæfellsnesi og horfir undrunaraugum á alnæmissmitaða hommann sem var að hnerra í átjánda sinn í röð.

- Auglýsing -

Hann snýr sér að drengnum, hortaumurinn lekur niður í munnvik, og spyr:

„Þú ert ekki búinn að finna sjálfan þig, er það nokkuð?“

Röddin er gömul, en maðurinn ekki, og ómur hennar ber með sér reynslu og röð mistaka.

„Nei, ég er enn að leita – er reyndar bara nýbyrjaður að leita. Veit ekki alveg hvar ég á að leita“ segir drengurinn með óstyrkri röddu.

Þó vottar fyrir aðdáun.

Hann gerir sér grein fyrir því en ekki af hverju aðdáunin stafar.

„Ert þú búinn að finna sjálfan þig?“

Spurningin kemur alnæmissmitaða hommanum ekki á óvart.

„Þú átt fljótlega eftir að finna sjálfan þig. Ég fann mig fyrir löngu, sé þó eftir ýmsu en er sáttur, því lífið getur verið svo ómerkilegt.“

Ungi óreyndi drengurinn hugsar um þessi orð meðan hann raular áfram með Bob Dylan:

„Freedom just around the corner for you, but with the truth so far off, what good will it do?“

Svo rennur upp fyrir honum ljós.

„Maður er bara eins og maður er, getur ekkert að því gert.“

Við þessi orð lifnar yfir alnæmissmitaða hommanum, glampi færist í augun, enda andrúmsloftið allt í einu orðið mun léttara og rödd hans einnig.

„Í hvaða herbergi ertu?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -