Þriðjudagur 24. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sigríður missti dóttur sína í snjóflóðinu í Súðavík: „Ég held að reiðin hafi bjargað lífi mínu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Rannveig Jónsdóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttarins Mannlífið. Hún hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á lífsleiðinni en í janúar árið 1995 missti hún unga dóttur sína í snóflóðinu í Súðavík sem og tengdaforeldra. Hér er brot úr fyrra hluta viðtalsins:

„Ég kvaldi mig svolítið yfir því að hafa látið þá litlu sofa sér, í sínu herbergi,“ segir Sigríður Rannveig við Reyni Traustason og útskýrir að það hafi verið lenska á þessum tíma að allir væru með sitt herbergi en hún bjó í Súðavík með þáverandi eiginmanni sínum, Þorsteini Gestssyni og tveimur dætrum þeirra, Lindu Rut, fædd 1989 og Hrafnhildi Kristínu, fædd 1993. Hún hélt áfram: „Við vorum nýflutt þangað og hún [Hrafnhildur Kristín. innsk. blaðamanns] var með herbergi við hliðina á okkur. Hún var þar í rimlarúminu sínu. Þetta var eitthvað sport þá að hver væri með sitt herbergi. En þetta var mikill sársauki svona eftir á, að hún skyldi ekki hafa verið í fanginu á mér. En ég fór oft í gegnum það, ef hún hefði verið í fanginu á mér þá hefði ég aldrei getað haldið í hana. Við vitum náttúrulega ekkert hvernig það hefði gerst, það er ómögulegt að segja til um það hvort hún hefði bjargast eða ekki.“

Snjóflóðið skall á þorpið um tuttugu mínútur yfir sex um morguninn 16. janúar 1995. „Ég er í raun bara nýsofnuð. Áður en ég sofna er ég alltaf að kíkja, rúmgaflinn okkar er upp við gluggann. Og ég er alltaf að kíkja og taka gardínurnar frá og kíkja upp í fjallið en húsið okkar var alveg upp við fjallshlíðina. Og ég sé náttúrulega ekkert en undirmeðvitundin mín var alltaf að öskra á mig að það var eitthvað ekki í lagi. Mér leið ekki vel, ég var óttaslegin en setti traust mitt 100 prósent á Almannavarnir.“

Sigríður Rannveig sofnaði svo loksins upp undir morgun. „Ég ligg á maganum og vakna við bara eins og kjarnorkusprengjur. Þá er það höggbylgjan á undan flóðinu sem sprengir húsin. Og þakið fer af og allt í einu er ég bara í lausu lofti og ég sé snjóhnullungana koma á móti mér en í leiðinni er ég að þeytast upp í loftið, þakið er farið af húsinu og og ég man bara að ég öskraði „Ég vissi það!“. Og ég var svo reið og ég held að þessi reiði hafi hjálpað mér að bjarga lífi mínu.“

Hægt er að sjá fyrri hluta viðtalsins hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -